Lögum um heilbrigðisþjónustu breytt til samræmis við heilbrigðisstefnu
Frumvarp Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra til breytinga á lögum um heilbrigðisþjónustu var samþykkt á Alþingi í dag. Með breytingunum eru lög um heilbrigðisþjónustu færð til samræmis við ályktun Alþingis um heilbrigðisstefnu til ársins 2030. Kjarni breytinganna felst í því að skilgreiningum á heilbrigðisþjónustu er skipt í þrjú stig, þ.e. fyrsta, annars og þriðja stigs heilbrigðisþjónustu, auk þess sem skýrar er kveðið á um hlutverk heilbrigðisstofnana. Gerðar eru breytingar á ákvæðum laganna um framkvæmdastjórnir og jafnframt kveðið á um að á öllum heilbrigðisstofnunum sem ríkið rekur skuli starfa sameiginleg fagráð fagstétta heilbrigðisstarfsfólks á viðkomandi stofnun.
Heilbrigðisráðherra segir að með lagabreytingunni sé skapaður traustari grundvöllur fyrir samhæfingu heilbrigðisþjónustu í landinu og stuðlað að því að landsmenn hafi aðgang að sem bestri þjónustu hvar sem þeir búa. Síðast en ekki síst endurspegli lögin nú þær áherslur sem Alþingi hefur samþykkt og koma fram í heilbrigðisstefnu til ársins 2030.