Jarðamál forsætisráðherra samþykkt
Alþingi samþykkti nú í gær frumvarp Katrínar Jakobsdóttur, forsætisráðherra, um jarðamál en með því er tryggð yfirsýn og gegnsæi um eignarhald á landi.
Þetta er fyrsta skrefið í þá átt að gera stýringu á því hversu mikið land safnast á fáar hendur mögulega. Með lögunum er hægt að stuðla að því að landnýting verði í samræmi við landkosti og með hagsmuni samfélagsins og komandi kynslóða að leiðarljósi. Þá eru um leið tryggðir möguleikar almannavaldsins til að koma í veg fyrir samþjöppun á eignarhaldi lands. Í framhaldinu verða kannaðir möguleikar á skilyrðum um búsetu eða nýtingu lands eins og fordæmi eru fyrir annars staðar á Norðurlöndum og er sú vinna þegar hafin í forsætisráðuneytinu.
Frumvarp forsætisráðherra tók til breytinga á fjórum lagabálkum sem geyma ákvæði um eignarráð og nýtingu fasteigna. Meðal þeirra er að sjónarmiðum um náttúruvernd, byggðaþróun og sjálfbærni er gert hærra undir höfði í markmiðsákvæðum jarðalaga.