Ísland meðal forysturíkja átaksverkefnis UN Women
Ísland verður á meðal forysturíkja átaksverkefnisins Kynslóð jafnréttis (e. Generation Equality Forum) á vegum stofnunar Sameinuðu þjóðanna um kynjajafnrétti og valdeflingu kvenna, UN Women. Stofnunin tilkynnti um forysturíkin í dag, sjá tilkynningu.
Kynslóð jafnréttis er stærsta verkefni UN Women hingað til og meðal helstu áherslumála aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, António Guterres. Átakið er til næstu fimm ára og er skilgreint í samræmi við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun fyrir árið 2030. Ríki, alþjóðastofnanir, frjáls félagasamtök og einkafyrirtæki voru valin á grundvelli umsókna til að leiða aðgerðabandalög um verkefni á sex málefnasviðum. Samkvæmt tilkynningu UN Women mun Ísland veita bandalagi um aðgerðir gegn kynbundnu ofbeldi forystu.
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra:
„Víða um heim sjáum við að kynbundið ofbeldi hefur aukist vegna aðstæðna sem hafa skapast í COVID-19 faraldrinum. Því er þetta verkefni, Kynslóð jafnréttis, alveg sérstaklega mikilvægt núna. Ísland verður á meðal forysturíkja í þessu þýðingarmikla verkefni til næstu fimm ára og fær tækifæri til að móta aðgerðaráætlanir gegn kynbundnu ofbeldi á alþjóðavísu. Hlutverk Íslands sem forysturíkis í þessu verkefni er í samræmi við markmið ríkisstjórnarinnar um að Ísland sé í fremstu röð í baráttunni gegn kynbundnu ofbeldi af öllu tagi.”
Markmið Kynslóðar jafnréttis er að vinna markvisst að úrbótum á sviðum þar sem enn hallar á konur og stúlkur en fimm árum eftir að ríki heims komu sér saman um heimsmarkmiðin sautján hefur komið í ljós að markmiðið um kynjajafnrétti er það markmið sem aðildarríki Sameinuðu þjóðanna eiga lengst í land með.
Verkefnið fer af stað í tilefni af 25 ára afmæli fjórðu ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um málefni kvenna sem haldin var í Peking árið 1995. Á ráðstefnunni var samþykkt pólitísk yfirlýsing og framkvæmdaáætlun um réttindi kvenna (Pekingáætlunin), sem m.a. byggist á ákvæðum Kvennasáttmála Sameinuðu þjóðanna frá árinu 1979, um afnám allrar mismununar gegn konum.
Sérstökum stýrihópi forsætisráðherra og utanríkisráðherra verður falið að samþætta aðgerðir og málflutning íslenskra stjórnvalda og afla stuðnings við verkefnið bæði innanlands og á alþjóðavettvangi. Byggt verður á því starfi sem þegar hefur verið unnið að í málaflokknum af hálfu íslenskra stjórnvalda og samráð átt við ráðuneyti, stofnanir og samtök sem vinna á sviði jafnréttismála á Íslandi.