Forsætisráðherrar Íslands og Noregs ræddu við norræna forstjóra
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, og Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs, funduðu sameiginlega með samtökum norrænna forstjóra, Nordic CEO´s for Sustainable Future, á fjarfundi í dag þar sem fylgt var eftir sameiginlegri yfirlýsingu forstjóranna frá því í fyrra um að vinna að heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.
Hópurinn kynnti fyrir forsætisráðherrunum þær skuldbindingar sem fyrirtæki þeirra, sem mörg eru meðal stærstu fyrirtækja Norðurlanda, hafa ákveðið að undirgangast í þeim efnum. Áhersla er lögð á mikilvægi samstarfs stjórnvalda og einkageirans um aukna sjálfbærni og að efla aðgerðir í loftslags- og jafnréttismálum (heimsmarkmið 5, 12 og 13). Enn fremur setti hópurinn fram nokkrar óskir og hvatningar til norrænu ríkisstjórnanna. Áhersla hópsins beinist einkum að loftslagsmarkmiðum, jafnrétti og fjölbreytni.
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra:
Heimsfaraldurinn hefur sýnt fram á að aukin samvinna ólíkra aðila í samfélaginu er lykillinn að því að hægt sé að bregðast hratt við miklum og óvæntum áföllum. Við þurfum að sama skapi að nýta þessa samvinnu til að hraða innleiðingu grænna lausna í því skyni að berjast gegn loftslagsbreytingum og tryggja að tæknibreytingar nýtist samfélaginu öllu.
Frumkvæði og samstarf norrænna fyrirtækja á sviði loftslagsmála og áherslan á jafnrétti og fjölbreytni er gríðarlega þarft og ég fagna þeirri hvatningu sem hópurinn hefur beint til ríkisstjórna Norðurlanda.