Fjárfestingastuðningur í sauðfjárrækt – yfirferð umsókna 2020 lokið
Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur lokið yfirferð umsókna um fjárfestingastuðning í sauðfjárrækt vegna framkvæmda á árinu 2020 í samræmi við reglugerð um stuðning í sauðfjárrækt nr. 1253/2019. Umsækjendur geta nú nálgast svarbréf við umsókn sinni inni á Bændatorginu undir Rafræn skjöl > Bréf.
Alls bárust 50 umsóknir, en af þeim voru 40 nýjar umsóknir og 10 framhalds umsóknir fyrir framkvæmdum sem hófust 2018 eða 2019. Heildarkostnaður við framkvæmdir sauðfjárbænda sem veittur er stuðningur fyrir á árinu 2020 er um 600 milljónir króna. Til úthlutunar eru kr. 59.049.291 samkvæmt fjárlögum ársins. Styrkhlutfall reiknast um 11,5% af heildarkostnaði þ.e. ef ekki kemur til skerðing vegna úthlutunar fyrri ára vegna sömu framkvæmdar. Hæsti áætlaði styrkur er kr. 5.906.287 en lægsti styrkur kr. 138.231. Eins og fyrri ár kom til hlutfallslegrar skerðingar á framlög samþykktra umsókna í samræmi við 26. gr. reglugerðarinnar þar sem fjármunir dugðu ekki til að greiða hámarksstyrkhlutfall, sem er 20%.
Um fjárfestingastuðning í sauðfjárrækt er fjallað í V. kafla reglugerðar um stuðning í sauðfjárrækt nr. 1253/2019. Fjárfestingastuðningur er veittur vegna framkvæmda sem stuðla að bættum aðbúnaði sauðfjár og hagkvæmari búskaparháttum. Markmið stuðningsins er að hraða því að framleiðendur standist kröfur skv. reglugerð um velferð sauðfjár og geitfjár nr. 1066/2014. Stuðningurinn er veittur vegna nýframkvæmda og/eða endurbóta á eldri byggingum og kom fyrst til úthlutunar árið 2018 eftir innleiðingu nýrra búvörusamninga.