Utanríkisráðherrar Norðurlandanna fá skýrslu Björns Bjarnasonar um þróun norræns samstarfs á sviði utanríkis- og öryggismála
„Norrænt samstarf á alþjóðlegum vettvangi hefur dafnað á undanförnum árum og áratugum. Norðurlöndin vinna öll að því að treysta alþjóðlega samvinnu til að verja sameiginleg gildi og hagsmuni. Heimurinn breytist hratt og því tímabært að taka næstu skref á þessari sameiginlegu vegferð og skoða í kjölinn með hvaða hætti megi efla samstarfið enn frekar. Tillögur Björns eru mjög áhugaverðar og ég vonast til þess að þær komist sem flestar til framkvæmda á næstu mánuðum og árum,“ segir Guðlaugur Þór.
Í skipunarbréfi Björns, frá 2. desember 2019, er honum falið að beina athygli að loftslagsbreytingum, fjölþáttaógnum og netöryggi auk leiða til að efla fjölþjóðasamstarf og virðingu fyrir alþjóðareglum. Skyldi skýrslugerðinni lokið um mitt ár 2020. Jóna Sólveig Elínardóttir, deildarstjóri deildar um alþjóðlegt öryggis- og varnarmálasamstarf, starfaði með Birni af hálfu utanríkisráðuneytisins. Hópur sérfræðinga og greinenda, skipaður tveimur fulltrúum frá hverju Norðurlandanna, var auk þess Birni til ráðuneytis.
Skýrslan skiptist í þrjá meginkafla í samræmi við áherslur skipunarbréfsins og viðauka. Tillögurnar eru 14 talsins og er efni þeirra eftirfarandi:
1. Aukin sameiginleg stefnumörkun á sviði loftslagsmála.
2. Loftslagsöryggi og þróunarmál.
3. Opinberir og einkaaðilar vinni saman á sviði orkuskipta.
4. Sameiginleg afstaða til Kína á norðurslóðum.
5. Hafrannsóknir til að minnka áhrif loftslagsbreytinga.
6. Sameiginleg afstaða gegn fjölþáttaógnum.
7. Viðbúnaður vegna heimsfaraldra.
8. Sameiginlegar reglur tryggi lýðræði í netheimum.
9. Samstarf á sviði nýrrar tækni og varnir gegn netárásum.
10. Umbætur og nútímavæðing alþjóðastofnana.
11. Norrænt samstarf um utanríkisþjónustu.
12. Hlutverk sendiráða og fastanefnda eflt.
13. Rannsóknir á sviði utanríkis- og öryggismála efldar.
14. Stafræn kynning á Nordic Brand og norrænum gildum.
Í viðaukanum er m.a. kafli um geópólitíska þróun mála á sameiginlegu áhrifasvæði Norðurlandanna.
„Þá var óumflýjanlegt að skýrslan tæki mið af þróuninni vegna COVID-19- faraldursins enda ljóst að hann mun hafa áhrif á norrænt og alþjóðlegt samstarf í nútíð og framtíð.“ segir Björn í inngangi skýrslunnar. „Ef skýrslan verður til þess að auka norrænt samstarf á sviði utanríkis- og öryggismála er hún skref til bjartari framtíðar.“ segir hann að lokum.
Í fréttatilkynningu norrænu utanríkisráðherranna þakka þeir Birni fyrir mikilvægt starf. Tillögur í skýrslunni verða ræddar á septemberfundi ráðherranna í höfuðborg formennskuríkisins, Kaupmannahöfn.
Skýrslan er samin á ensku og gefin út á netinu
Fréttatilkynningu Norðurlandanna um skýrsluna má finna hér.