Reglugerð um gerð og búnað reiðhjóla í samráðsgátt
Drög að nýrri reglugerð um gerð og búnað reiðhjóla hafa verið birt í samráðsgátt stjórnvalda. Allir hafa tækifæri til að senda inn umsögn eða ábendingar en frestur til að skila inn umsögn er til og með 31. júlí nk.
Með drögunum er lagt til að sett verði ný heildarreglugerð um gerð og búnað reiðhjóla sem felli úr gildi reglugerð um gerð og búnað reiðhjóla nr. 57/1994. Drögin miða að því að gera gildissviðið skýrt og það taki almennt aðeins til hefðbundinna reiðhjóla. Þó taka tiltekin ákvæði einnig til lítilla vélknúinna ökutækja á borð við vélknúin hlaupahjól og tvíhjóla ökutæki á einum öxli sem skilgreind eru sem reiðhjól skv. c-lið 30. tölul. 2. gr. umferðarlaga.
Í drögunum er að finna ýmis nýmæli s.s. nýtt ákvæði um gerð og eiginleika rafdrifinna reiðhjóla í samræmi við ákvæði umferðarlaga, ákvæði um lýsingu og glitmerki eru skýrð og settar eru inn lágmarkskröfur til ljósabúnaðar. Einnig eru lögð til ákvæði um hliðar- og eftirvagna og um flutning farþega. Þá eru kröfur til hemla skýrðar frá því sem segir í gildandi reglugerð og lagt til að lítil vélknúin ökutæki sem teljast til reiðhjóla skuli búin glitmerkjum og ljósum en aðeins megi flytja farþega á tækjunum séu þau sérstaklega útbúin til þess.