Hoppa yfir valmynd
15. júlí 2020 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Listdansráð skipað til fimm ára

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, hefur skipað listdansráð Íslenska dansflokksins til næstu fimm ára. Ráðið er skipað þremur einstaklingum; tveimur sem eru tilnefndir af fagfélögum innan Sviðslistasambands Íslands og einum sem ráðherra skipar án tilnefningar og skal sá vera formaður ráðsins, samkvæmt nýjum lögum um sviðslistir. Sigríður Soffía Níelsdóttir, dansari og danshöfundur, verður formaður ráðsins, en auk hennar sitja í ráðinu Ólöf Ingólfsdóttir og Guðmundur Helgason. Varamenn eru Jóhanna S. Jafetsdóttir, skipuð án tilnefningar, Katrín Johnsson og Ólafur Darri Ólafsson.

„Nýjum sviðslistalögum er ætlað að vökva og næra starf okkar frábæra sviðslistafólks. Ég er sannfærð um að nýtt listdansráð verður Íslenska dansflokknum mikill stuðningur og að flokkurinn festi sig enn frekar í sessi sem vagga listdansmenningar í landinu, framsækinn og nútímalegur. Við búum vel að eiga listamenn á borð við dansarana sem skipa Íslenska dansflokkinn og ég hlakka til að sjá starfið dafna áfram, “ segir Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.

Listdansráð hefur eftirlit með starfsemi Íslenska dansflokksins og veitir ráðherra reglulega umsögn um stefnu hans og áætlanir. Samkvæmt lögum er það hlutverk Íslenska dansflokksins að sýna dansverk, vera vettvangur fyrir framþróun og nýsköpun danslistar á Íslandi og glæða áhuga landsmanna á danslist. Verkefnaval skal vera fjölbreytt og tryggt skal að á dagskrá hvers starfsárs séu íslensk dansverk. Dansflokkurinn annast einnig fræðslu- og kynningarstarf og stendur að sýningarferðum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta