Skráning hafin á Gagnaþon fyrir umhverfið
Gagnaþon fyrir umhverfið er yfirskrift nýsköpunarkeppni sem fer fram dagana 12.-19. ágúst næstkomandi. Að þessu sinni er áhersla lögð á þróun lausna sem gagnast umhverfinu, í samræmi við aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum.
Þetta er í fyrsta skiptið sem slíkt gagnaþon er haldið hér á landi en það eru hluti af aðgerðum stjórnvalda til að fylgja eftir Nýsköpunarstefnu fyrir Ísland. Markmið þess er fyrst og fremst að auka hagnýtingu og sýnileika opinna gagna, efla tengslanet meðal þátttakenda og ýta undir nýsköpun í þágu umhverfis og samfélags.
Mikil verðmæti geta leynst í ópersónugreinanlegum gögnum í vörslu opinberra aðila og með aukinni notkun slíkra gagna má ná fram margvíslegum umbótum í þágu samfélagsins, svo sem betri þjónustu og auknu gagnsæi hjá opinberum aðilum, eflingu rannsókna og nýsköpunar hjá stofnunum og fyrirtækjum og aukinni verðmætasköpun í atvinnulífinu. Þær stofnanir sem veita aðgang að gögnum sínum að þessu sinni eru Umhverfisstofnun, Veðurstofan, Hagstofa Íslands, Náttúrufræðistofnun Íslands, Orkustofnun og Landmælingar Íslands. Auk gagna í vörslu þessara aðila mega þátttakendur notast við önnur gagnasett sem eru opin og aðgengileg á heimasíðum opinberra aðila.
Opnað hefur verið fyrir skráningar HÉR, þar sem einnig er hægt að kynna sér verkefnið nánar. Áhersla er lögð á að allir geti tekið þátt. Gagnaþonið fer fram í Háskóla Íslands og Háskólanum á Akureyri en auk þess er mögulegt að taka þátt í gegnum netið.
Veitt verða verðlaun í eftirfarandi þremur flokkum:
- Besta gagnaverkefnið - 750.000 kr.
- Endurbætt lausn - 450.000 kr.
- Besta hugmyndin - 200.000 kr.
Verkefnið er styrkt af ráðstöfunarfé ríkisstjórnarinnar og unnið í samvinnu við Háskóla Íslands, Háskólann á Akureyri, Háskólann í Reykjavík og Ísland.is. Framkvæmd gagnaþonsins er í höndum Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands.
Hvað er gagnaþon?
Gagnaþon er nýsköpunarkeppni þar sem þverfagleg teymi vinna saman í afmarkaðan tíma við að finna lausnir í þágu umhverfis, byggðum á hagnýtingu þeirra gagna sem lögð eru fram. Lausnirnar geta verið allt frá hugmynd á frumstigi til fullkláraðs smáforrits. Þátttakendur keppa saman í tveggja til fimm manna teymum. Teymunum býðst einnig ráðgjöf frá leiðbeinendum sem eru til aðstoðar á meðan keppnin stendur yfir.
Skráning á Gagnaþon fyrir umhverfið