Hrönn Jörundsdóttir nýr forstjóri MAST
Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefur skipað doktor Hrönn Jörundsdóttur í embætti forstjóra Matvælastofnunar. Hrönn hefur störf 1.ágúst nk.
Hrönn er með BS gráðu í efnafræði frá Háskóla Íslands og lauk MS-prófi í umhverfisefnafræði árið 2002 frá Stokkhólmsháskóla. Árið 2009 lauk hún einnig doktorsgráðu í umhverfisefnafræði frá Stokkhólmsháskóla og hefur unnið hjá MATÍS undanfarin 11 ár. Frá árinu 2016 hefur hún verið stjórnandi hjá MATÍS þar sem hún hefur stýrt fjölmörgum innlendum og alþjóðlegum rannsóknarverkefnum, stefnumótun, rekstri og ráðgjafarverkefnum. Einnig hefur Hrönn verið formaður áhættumatsnefndar á sviði matvæla, fóðurs, áburðar og sáðvöru frá árinu 2019. Hún hefur ennfremur sérhæft sig á sviði matvælaöryggis, áhættumats og áhættumiðlunar.
Alls bárust átján umsóknir um starf forstjóra Matvælastofnunar, en umsóknarfrestur rann út þann 4. maí 2020 og mat hæfnisnefnd fimm umsækjendur vel hæfa til þess að gegna því. Í kjölfarið boðaði ráðherra þá í viðtal þar sem ítarlega var farið ofan í einstaka þætti starfsins og sýn umsækjenda.
Var það mat ráðherra, að Hrönn Jörundsdóttir væri hæfust umsækjenda til að stýra Matvælastofnun til næstu fimm ára.