Hoppa yfir valmynd
29. júlí 2020 Heilbrigðisráðuneytið

Förum varlega áfram

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra - myndHeilbrigðisráðuneytið

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra skrifar:

Fyrsta Covid-19-smitið greind­ist hér­lend­is 28. fe­brú­ar síðastliðinn og far­ald­ur­inn náði há­marki hér í byrj­un apríl. Okk­ur tókst að bæla far­ald­ur­inn niður með mark­viss­um aðgerðum; sýna­tök­um, sótt­kví, ein­angr­un og þátt­töku al­menn­ings í sótt­varnaaðgerðum. Þegar fyrsta áfang­an­um í bar­átt­unni við Covid-19-sjúk­dóm­inn lauk og örfá eða eng­in smit voru far­in að grein­ast hér­lend­is á hverj­um degi tók svo við sú áskor­un að opna landið okk­ar fyr­ir ferðamönn­um á ör­ugg­an hátt.

Um miðjan júní bætt­ist val­kost­ur um sýna­töku á landa­mær­um við fyr­ir þá sem komu til lands­ins, þannig að öll sem það kjósa og upp­fylla skil­yrði gátu valið að gang­ast und­ir sýna­töku í stað þess að vera í sótt­kví í 14 daga við komu til lands­ins, eins og öll­um hafði verið skylt frá því í mars.

Að til­lögu sótt­varn­ar­lækn­is ákvað ég hinn 13. júlí að þau sem bú­sett eru hér á landi eða eru ís­lensk­ir rík­is­borg­ar­ar og hafa valið að fara í sýna­töku við kom­una til lands­ins skyldu viðhafa heim­komu­smit­gát þar til niður­stöður úr síðari sýna­töku lægju fyr­ir. Sú ákvörðun var tek­in til þess að minnka lík­urn­ar á að röng niðurstaða á prófi á landa­mær­um leiddi til hópsmita.

Sam­hliða því að taka sýni á landa­mær­um höf­um við verið að draga úr sam­komutak­mörk­un­um, hægt og ró­lega. Þegar leið á vorið voru regl­ur um fjölda­tak­mark­an­ir smám sam­an rýmkaðar, leik- og grunn­skól­ar opnaðir á ný og íþrótta- og æsku­lýðsstarf hófst aft­ur.

Til þess að lág­marka áhætt­una á því að far­ald­ur­inn næði sér á strik hér á landi ákvað ég hinn 3. júlí, að til­lögu sótt­varna­lækn­is, að fram­lengja aug­lýs­ingu um tak­mörk­un á sam­kom­um frá 15. júní. Í gær, 28. júlí, ákvað ég svo að fram­lengja nú­gild­andi aug­lýs­ingu um tak­mörk­un á sam­kom­um til 18. ág­úst. Fjölda­tak­mörk á sam­kom­um miðast því áfram við 500 manns og af­greiðslu­tími spila­sala og veit­ingastaða með vín­veit­inga­leyfi verður einnig óbreytt­ur og heim­ilt að hafa opið til 23.00.

Í ljósi þess að á und­an­förn­um dög­um hafa inn­flutt smit greinst hér í vax­andi mæli og dreif­ing á Covid-19-sjúk­dómn­um hef­ur orðið inn­an­lands þurf­um við að fara með gát varðandi til­slak­an­ir á fjölda­tak­mörk­um og af­greiðslu­tíma skemmti- og vín­veit­ingastaða.

Við get­um verið ánægð með þann ár­ang­ur sem aðgerðir okk­ar hafa borið hingað til en við meg­um ekki gleyma því að fara var­lega. Við þurf­um að gæta sótt­varna vel áfram, og muna að til­gang­ur­inn með þeim sótt­varnaaðgerðum sem enn eru í gildi er ein­mitt sá að hamla því að veir­an nái sér aft­ur á strik í sam­fé­lag­inu. Við þurf­um að muna eft­ir okk­ar ein­stak­lings­bundnu sótt­vörn­um, þvo hend­ur, spritta og geyma knúsið þar til síðar. Einnig að halda okk­ur heima ef við sýn­um ein­kenni og vernda okk­ar viðkvæm­asta fólk. Þannig viðhöld­um við okk­ar góða ár­angri í bar­átt­unni við veiruna áfram.

Grein heilbrigðisráðherra birtist í Morgunblaðinu 29. júlí 2020

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta