Utanríkisráðherrafundur NB8-ríkja um Hvíta-Rússland
Ástandið í Hvíta-Rússlandi var til umræðu á sérstökum utanríkisráðherrafundi Norðurlanda og Eystrasaltsríkja sem haldinn var í dag. Samstaða var um að senda yrði stjórnvöldum í Minsk skýr skilaboð um að framganga þeirra í tengslum við forsetakosningarnar þar í landi yrði ekki látin óátalin.
Fulltrúar ríkjanna átta sem tóku þátt í fjarfundinum í dag voru sammála um að styðja þyrfti við bak þeirra borgara Hvíta-Rússlands sem mótmælt hafa með friðsömum hætti framkvæmd forsetakosninganna um síðustu helgi. Ofbeldi sem stjórnvöld hafa beitt verði að linna, láta skuli mótmælendur lausa úr haldi og viðræður við stjórnarandstöðuna teknar upp án tafar.
Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, lýsti á fundinum yfir ánægju með samstöðuna sem náðst hefði um málið eins og sameiginleg yfirlýsing utanríkisráðherra NB8-ríkjanna frá í fyrradag sýndi. „Það er mikilvægt að við tölum einni röddu í þessu máli enda snýst það um grundvallarmannréttindi. Það er með ólíkindum að slík kúgun og valdníðsla viðgangist í Evrópu nú á dögum enda vorum við á einu máli um að framgöngu ríkisstjórnar Lúkasjenkó forseta væri ekki hægt að láta óátalda,“ sagði Guðlaugur Þór eftir fundinn.
Useful and important VTC discussion today with the #NB8 FMs about the grave situation in #Belarus. We stand in solidarity with the people of 🇧🇾. The violence and persecution by the #Lukashenko regime cannot be tolerated. 🇮🇸🇩🇰🇸🇪🇳🇴🇫🇮🇪🇪🇱🇻🇱🇹 https://t.co/te8oHJLoFB
— Guðlaugur Þór (@GudlaugurThor) August 14, 2020
Á fundinum kom fram vilji til að taka málefni Hvíta-Rússlands upp á vettvangi alþjóðastofnana, til dæmis Sameinuðu þjóðanna, Evrópuráðinu eða Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu (ÖSE). Utanríkisráðherrar Evrópusambandsríkjanna ræða málið á fundi sínum síðar í dag.
Auk Guðlaugs Þór Þórðarsonar sátu fundinn Pekka Haavisto, utanríkisráðherra Finnlands, Audun Halvorsen, aðstoðarutanríkisráðherra Noregs, Robert Rydberg, aðstoðarutanríkisráðherra Svíþjóðar, Jesper Møller Sørensen, skrifstofustjóri alþjóðamála í danska utanríkisráðuneytinu, Ilgvars Klava, skrifstofustjóri tvíhliða samskipta í utanríkisráðuneyti Lettlands, Linas Linkevicius, utanríkisráðherra Litháens og Urmas Reinsalu, utanríkisráðherra Eistlands, sem var fundarstjóri, en Eistland gegnir nú formennsku í samstarfi Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna.