Hoppa yfir valmynd
18. ágúst 2020 Heilbrigðisráðuneytið, Utanríkisráðuneytið, Forsætisráðuneytið

Breyttar reglur um sóttkví, einangrun og sýnatöku á landamærum

Farþegar sem koma til Íslands frá og með 19. ágúst geta valið á milli þess að fara í tvær sýnatökur vegna COVID-19 með 5 daga sóttkví á milli þar til niðurstaða seinni sýnatöku liggur fyrir, eða sleppa sýnatöku og sitja í 14 daga sóttkví frá komunni til landsins. Reglugerð heilbrigðisráðherra þessa efnis tekur gildi á miðnætti. Krafa um skimun og sóttkví nær til þeirra sem hafa dvalið í meira en sólarhring síðastliðna 14 daga í löndum sem skilgreind eru af sóttvarnalækni sem áhættusvæði en sem stendur gildir það um öll lönd. Börn fædd árið 2005 eða síðar eru undanþegin sýnatöku og sóttkví og sama gildir um þá sem íslensk heilbrigðisyfirvöld hafa staðfest með PCR-prófi að hafi áður fengið COVID-19 sýkingu og lokið einangrun, eða ef COVID-19 sýking hefur verið staðfest með mótefnamælingu. Tengifarþegar sem fara ekki út fyrir viðkomandi landamærastöð þurfa hvorki að fara í sóttkví eða í sýnatöku.

Fyrir komuna til Íslands er einstaklingum skylt að forskrá sig með því að fylla út rafrænt eyðublað þar sem meðal annars koma fram samskiptaupplýsingar, upplýsingar um hvar viðkomandi hefur dvalið, hvar hann hyggst dvelja í sóttkví á Íslandi og upplýs­ingar um heilsufar. Þeim sem flytja farþega til Íslands er skylt að vekja athygli viðkomandi á skyldu til forskráningar með hæfilegum fyrirvara.

Ákveðið var að halda áfram að bjóða fólki val um 14 daga sóttkví í stað skimunar en bregðast við tillögu sóttvarnalæknis hvað það varðar, með auknu eftirliti til að tryggja að þeir sem velji þennan kost fari að reglum. Enn fremur er til skoðunar að hækka sektarfjárhæðir við brotum á sóttvarnalögum og reglum settum samkvæmt þeim.

Reglur um sóttkví eru þessar:

Einstaklingur í sóttkví;

  1. má ekki fara út af heimili nema brýna nauðsyn beri til, svo sem til að sækja nauðsynlega heilbrigðisþjónustu. Hann má þó fara í gönguferðir en þarf að halda sig í a.m.k. 2 metra fjarlægð frá öðrum vegfarendum.
  2. má ekki taka á móti gestum á heimili sínu eða á þeim stað þar sem hann er í sóttkví meðan sóttkví stendur yfir.
  3. má ekki nota almenningssamgöngur en honum er heimilt að nota leigubíl.
  4. má ekki fara til vinnu eða skóla þar sem aðrir eru.
  5. má hvorki fara á mannamót né staði þar sem margir koma saman, þ.m.t. í verslanir eða lyfjabúðir.
  6. má ekki dvelja í sameiginlegum rýmum fjölbýlishúsa, hótela og öðrum sambærilegum rýmum, svo sem stigagöngum, þvottahúsum eða sameiginlegum görðum/útivistarsvæðum, nema á leið inn og út.

Gjaldtaka

Gjald fyrir sýnatöku á landamærum verður óbreytt frá því sem verið hefur, þ.e. 9.000 kr. hafi viðkomandi greitt gjaldið við forskráningu fyrir komuna til landsins en 11.000 kr. ef greitt er á landamærum. Seinni sýnatakan er gjaldfrjáls.

Vinnusóttkví

Líkt og verið hefur getur sóttvarnalæknir heimilað einstaklingum, einum eða fleiri saman, sem skylt er að fara í sóttkví og eru komnir hingað til lands til starfa eða til að sinna sérstökum verkefnum að fara í vinnusóttkví í stað heimasóttkvíar. Með vinnusóttkví er átt við að viðkomandi geti farið til og frá vinnustað á meðan sóttkví stendur. Ákvæði um fyrirkomulag vinnusóttkvíar eru óbreytt.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta