Hoppa yfir valmynd
18. ágúst 2020 Heilbrigðisráðuneytið

Ráðist greiningu á rekstrarkostnaði hjúkrunarheimila

Heilbrigðisráðherra hefur skipað starfshóp til að greina raungögn um rekstur og rekstrarkostnað hjúkrunarheimila. Skipun hópsins er í samræmi við samkomulagi milli Sjúkratrygginga Íslands, Samband íslenskra sveitarfélaga og Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu frá í desember 2019. Formaður hópsins er Gylfi Magnússon en þar sitja einnig fulltrúar frá Samtökum fyrirtækja í velferðarþjónustu, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Sjúkratrygginga Íslands og heilbrigðisráðuneytisins. Verkefnastjórnin skal skila niðurstöðum sínum eigi síðar en 1. nóvember 2020.

Eins og fram kemur í fyrrnefndu samkomulagi voru aðilar sammála um að greina skuli raungögn um rekstur og rekstrarkostnað hjúkrunarheimila. Mikilvægt er að sú greining njóti trausts allra aðila, þ.e. ríkis og rekstraraðila og því grundvallarforsenda að hún sé gerð með það fyrir augum. Verkefnastjórnin er skipuð með þetta fyrir augum og skal hún í vinnu sinni við greiningu raungagna líta til eftirtalinna þátta:

  • Raungögn rýnd til að greina kostnað vegna kröfulýsingar fyrir hjúkrunar- og dvalarrými frá árinu 2016 sem lögð er til grundvallar í gildandi samningum um rekstur og þjónustu hjúkrunarheimila.
  • Sundurgreining á raunkostnaði við mismunandi þætti þjónustu á hjúkrunarheimilum, þ.e. heilbrigðisþjónustu, félagsþjónustu, húsnæðis- og fæðiskostnað („dvalarkostnað“),  og umönnun sem bæði getur fallið í flokk heilbrigðis- og félagsþjónustu.
  • Áhrif mismunandi hjúkrunarþyngdar (RUG stuðlar) á rekstrarkostnað hjúkrunarheimila.
  • Stærð hjúkrunarheimila (fjöldi rýma) og áhrif hennar á rekstrarkostnað. Greina hvernig rekstrarkostnaður skalast upp eftir stærð heimilis.
  • Samsetning íbúa og áhrif búsetu einstaklinga úr ákveðnum hópum á rekstrarkostnað heimila, hvort það endurspeglist síður í metinni hjúkrunarþyngd heimilisins út frá interRAI mælitækinu. Þar er sérstaklega horft til yngri íbúa og einstaklinga sem glíma við tiltekin vandamál s.s. fíkni- og eða geðsjúkdóma, heilabilun eða alvarlegar hegðunartruflanir (BPSD). 
  • Áhrif óvenju kostnaðarsamrar heilbrigðisþjónustu einstaklings á rekstur hjúkrunarheimila af mismunandi stærð. Hér er um að ræða einstaka íbúa hjúkrunarheimila sem þurfa, óvenju mikla þjónustu, hjálpartæki eða lyfjagjöf. Skoða þarf hvort og þá að hvaða marki slík tilvik hafa áhrif á rekstur hjúkrunarheimila af mismunandi stærð.
  • Húsnæði hjúkrunarheimila. Hér er bæði átt við fjármögnun og áhrif mismunandi eignarhalds á rekstur en ekki síður hönnun þeirra og stærð (fermetrafjölda pr. rými) m.t.t. áhrifa á mönnunarþörf og rekstur.
  • Staðsetning hjúkrunarheimila m.t.t. sjúkraflutningskostnaðar til sérhæfðari heilbrigðisþjónustu en veitt er á heimilinu.
  • Kostnaðarþátttaka íbúa.

Verkefnastjórnina skipa

  • Gylfi Magnússon, án tilnefningar, formaður
  • Anna Björg Aradóttir, fulltrúi heilbrigðisráðuneytisins, án tilnefningar
  • Gísli Páll Pálsson, tiln. af Samtökum fyrirtækja í velferðarþjónustu
  • Halldór Jónsson, tilnefndur af Sjúkratryggingum Íslands
  • Valgerður Freyja Ágústsdóttir, tilnefnd af Sambandi íslenskra sveitarfélaga

Verkefnastjórninni er heimilt að útvista einstaka þáttum úttektarinnar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta