Leiðbeiningar fyrir framhalds- og háskóla tryggi sameiginlegan skilning
Á annað hundrað skólastjórnendur, kennarar og sérfræðingar tóku þátt í fjarfundi um sóttvarnarráðstafanir í framhalds- og háskólum með Þórólfi Guðnasyni sóttvarnalækni og Víði Reynissyni yfirlögregluþjóni í gær. Á fundinum var rætt um skipulag skólastarfs á framhalds- og háskólastigi í upphafi nýs skólaárs og hvernig skólar gætu uppfyllt sínar skyldur gagnvart nemendum, samhliða fylgni við fyrirliggjandi sóttvarnareglur. Í kjölfar fundarins voru gefnar út leiðbeiningar til skóla og fræðsluaðila, sem eiga að auðvelda skipulagningu skólastarfs og sameiginlegan skilning á gildandi reglum.
„Markmið okkar er að tryggja menntun en jafnframt öryggi og velferð nemenda, kennara og starfsfólks skólanna. Skólarnir eru vinnustaðir nemendanna og það er hugur í þeim að hefjast handa. Við treystum á góða samvinnu allra, og miðlum þeim leiðum og lausnum sem best hafa reynst – það er eitt brýnasta velferðarmál okkar til framtíðar að tryggja gæði menntunar,“ segir Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.
Í leiðbeiningum segir að skólar og framhaldsfræðsluaðilar beri ábyrgð á eftirfylgni við sóttvarnarreglur á hverjum tíma, með öryggi og velferð nemenda, kennara og starfsfólks að leiðarljósi. Skólar starfi í samræmi við nám- og kennsluskrár en námsskipulag og framkvæmd geti breyst í takt við skilgreind áhættustig og takmarkanir. Mikilvægt sé að fylgst sé með líðan nemenda og skólayfirvöld hafi yfirsýn yfir þá sem þurfa sérstakan stuðning. Þá er lögð áhersla er lögð á gott upplýsingaflæði til nemenda, forráðamanna, kennara og starfsfólks um stöðu mála, úrræði og stuðning sem í boði er.
Munur er á leiðbeiningum til framhaldsskóla og háskóla að því leiti að framhaldsskólum er veittur meiri sveigjanleiki til þess að skipuleggja staðnám sinna nemenda í ljósi fræðsluskyldu sem er til 18 ára aldurs og mismunandi aðstöðu bekkjar- og áfangaskóla.