Ráðuneytisstjóraskipti í utanríkisráðuneytinu
Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, hefur ákveðið breytingar á yfirstjórn utanríkisráðuneytisins og flutninga á forstöðumönnum sendiskrifstofa. Þær fela ekki í sér skipun nýrra sendiherra heldur er eingöngu um flutninga núverandi sendiherra að ræða.
Sturla Sigurjónsson lætur af starfi ráðuneytisstjóra 1. september og verður sendiherra með aðsetur í Lundúnum 15. nóvember nk. Við starfi ráðuneytisstjóra tekur Martin Eyjólfsson, skrifstofustjóri alþjóða- og þróunarsamvinnuskrifstofu utanríkisráðuneytisins, frá og með 1. september.
Stefán Haukur Jóhannesson, núverandi sendiherra í Lundúnum verður sendiherra Íslands í Tókýó 1. janúar nk. í stað Elínar Flygenring sem kemur til starfa í ráðuneytinu um áramótin.