10 aðgerðir til að efla vísindi og nýsköpun
Framlög í samkeppnissjóði í vísindum og nýsköpun munu vaxa um helming á næsta ári miðað við fjárlög ársins 2020, samkvæmt nýrri vísinda- og tæknistefnu. Framtíðarsýn Vísinda- og tækniráðs til ársins 2030, ásamt stefnu næstu tvö árin, var kynnt í dag og verður fylgt eftir með tíu tímasettum aðgerðum sem miða að því að efla vísindi, nýsköpun og tækniþróun.
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra: „Öflugt vistkerfi nýsköpunar og rannsókna verður ekki til á einni nóttu en er forsenda þess að nýsköpunarstarfsemi vaxi og dafni og skili varanlegum ávinningi fyrir efnahagslíf og samfélag. Opinber fjárfesting í grunnrannsóknum og þróun getur skilað sér í margháttuðum efnahagslegum og samfélagslegum framförum. Ríkisstjórnin hefur sýnt þessa áherslu í verki með því að auka verulega opinbert fjármagn í rannsóknir og nýsköpun og það er sérstakt ánægjuefni að við látum ekki staðar numið hér, heldur stefnum að 50% aukningu í samkeppnissjóðina á næsta ári miðað við síðustu fjárlög líkt og birtist í nýrri vísinda- og tæknistefnu.“
Vísinda- og tækniráð samþykkti stefnumörkun til næstu tveggja ára á fundi sínum í dag en í henni er sérstaklega horft til þess hvernig styrkja megi „vistkerfi“ vísinda og nýsköpunar til að skapa öflugt umhverfi fyrir þekkingarstarfsemi hér á landi sem getur orðið grundvöllur efnahagslegrar viðspyrnu eftir heimsfaraldur kórónaveiru.
Aðgerðirnar miða að því að hækka framlag í samkeppnissjóði í vísindum og nýsköpun á næstu árum með tímabundnu þriggja ára átaki. Munu sjóðirnir vaxa um u.þ.b. 50% á árinu 2021 miðað við fjárlög ársins 2020. Aðrar aðgerðir ganga út á að efla gæði í háskólastarfi og fjármögnun háskóla, auka aðgang að opinberum gögnum, styrkja miðlun vísinda og efla færni á vinnumarkaði svo fólk verði betur í stakk búið til að takast á við örar tæknibreytingar í náinni framtíð.
Í Vísinda- og tæknistefnu er einnig lögð áhersla á mikilvægi vísinda og nýsköpunar til að takast á við samfélagslegar áskoranir eins og loftslagsvá, eflingu heilsu og velferðar og fjórðu iðnbyltinguna.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra er formaður Vísinda- og tækniráðs. Aðrir ráðherrar sem sitja í ráðinu eru: Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra. Auk ráðherra sitja sextán manns í ráðinu. Formenn starfsnefnda ráðsins eru Ragnhildur Helgadóttir (vísindanefnd) og Ragnheiður H. Magnúsdóttir (tækninefnd).