Greining á kynbundnum mun á heilsu og heilbrigðisþjónustu
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að láta kortleggja heilsufar landsmanna út frá kynja- og jafnréttissjónarmiðum og gera mat á því hvort heilbrigðisþjónustan taki mið af ólíkum þörfum kynjanna. Byggt verður á fyrirliggjandi gögnum úr heilbrigðiskerfinu og almannatryggingakerfinu og niðurstöðum ýmissa kannana sem tengjast lífsháttum og lýðheilsu. Fyrirmynd að verkefninu er sótt í niðurstöður nefndar heilbrigðisráðherra um heilsufar kvenna frá árinu 2000.
Niðurstöður nefndarinnar um heilsufar kvenna bentu til þess að konur búi að nokkru leyti við lakara heilsufar en karlar, að þær nýti heilbrigðisþjónustuna meira en þeir, séu sendar í fleiri rannsóknir, fái oftar sjúkdómsgreiningu og meðferð og sé ávísað lyfjum í meira mæli en körlum. Á þeim tíma sem nefndin starfaði skorti mjög á að upplýsingar og gögn um heilsufar landsmanna væru greind eða sundurliðuð eftir kyni og aldri. Ætla má að mikið hafi áunnist í öflun kyngreindra gagna og upplýsinga og því eru efni talin standa til þess að ráðast í sambærilega vinnu við skoðun á þessu efni og gert var fyrir tuttugu árum. Markmiðið er hið sama og áður, þ.e. að greina kynbundin mun á heilsufari og í hverju hann felst og hvort þjónusta heilbrigðiskerfisins mæti ólíkum þörfum kynjanna sem skyldi. Við greininguna verður jafnframt horft til þess að fleiri þættir en kyn skilgreina stöðu fólks og geta haft áhrif á heilsufar þeirra.
Heilbrigðisráðuneytið hefur samið við Félagsvísindasvið Háskóla Íslands um gerð rannsóknarinnar sem Finnborg S. Steinþórsdóttir nýdoktor í kynjafræði mun annast.
Gagnaöflun vegna verkefnisins er þegar hafin en gert er ráð fyrir að niðurstöður liggi fyrir í skýrslu fyrir lok þessa árs.
Í meðfylgjandi verkefnislýsingu má sjá hvaða þættir verða til skoðunar í greiningunni. Sem dæmi má nefna upplýsingar fjölskyldugerð, efnahag, menntun, neysluvenjur, lyfjanotkun, slys, sjúkdóma, örorku, efnahag, bólusetningar og margt fleira.