Skýrsla um dánaraðstoð lögð fyrir Alþingi
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur lagt fram á Alþingi skýrslu um dánaraðstoð. Í skýrslunni er m.a. fjallað um þróun lagaramma í löndum þar sem dánaraðstoð er leyfð, um tíðni, ástæður og skilyrði dánaraðstoðar í þeim löndum og hver reynslan hefur verið. Einnig er reifuð opinber umræða um dánaraðstoð í nokkrum löndum þar sem dánaraðstoð er ekki leyfð og um mögulegar lagabreytingar hvað það varðar, einkum hjá hinum Norðurlandaþjóðunum, í Þýskalandi og Kanada. Skýrslan er lögð fram í samræmi við beiðni þingmanna þar að lútandi.
Með skýrslunni er leitast við að draga saman upplýsingar um þetta efni og setja þær fram á hlutlausan hátt. Ekki er tekin afstaða til þess hvort heimila eigi dánaraðstoð, heldur er skýrslunni ætlað að vera grundvöllur frekari umræðu um þessi efni. Fram kemur að eftir því sem næst verður komist sé ekkert hinna Norðurlandanna að undirbúa lagabreytingar á þessu sviði.
Til að afmarka efnistök skýrslunnar er yfirhugtakinu dánaraðstoð skipt í fjögur meginundirhugtök sem byggjast á því um hve mikið inngrip er að ræða í líf sjúklings. Þetta eru líknarmeðferð, óbein dánaraðstoð, læknisaðstoð við sjálfsvíg og loks bein dánaraðstoð. Ekki er sjálfgefið að fella líknarmeðferð hér undir en í skýrslunni er það gert með hliðsjón af rétti sjúklings til að hafna meðferð. Um þetta er m.a. fjallað í klínískum leiðbeiningum Landspítala (kafli 8.2 Ósk um að flýta dauða).
Viðhorfskannanir
Í skýrslubeiðninni til heilbrigðisráðherra er óskað eftir umfjöllun um hvort tækt sé að gera viðhorfskönnun meðal heilbrigðisstarfsmanna um afstöðu þeirra til dánaraðstoðar, annars vegar hvort starfsmenn telji dánaraðstoð vera réttlætanlega í ákveðnum tilfellum og hins vegar hvort þeir væru tilbúnir að verða við slíkri ósk að uppfylltum skilyrðum og að því gefnu að það samræmdist íslenskum lögum. Í skýrslunni er slík könnun talin möguleg og jafnframt bent á að hugsanlega þyrfti einnig að kanna viðhorf almennings í þessu sambandi.