Rýmri samkomutakmarkanir taka gildi 7. september
Nálægðarreglu verður breytt úr 2 metrum í 1 metra og hámarksfjöldi þeirra sem mega koma saman fer úr 100 manns í 200 þegar nýjar reglur um takmarkanir á samkomum taka gildi á mánudaginn, 7. september. Þetta er meginefni nýrrar reglugerðar Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra um takmarkanir á samkomum. Breytingarnar eru í samræmi við tillögur sóttvarnalæknis.
Aðrar breytingar á samkomutakmörkunum sem verða með reglugerðinni eru þessar:
- Hámarksfjöldi á sund- og baðstöðum og líkamsræktarstöðvum fer úr helmingi af leyfilegum hámarksfjölda gesta samkvæmt starfsleyfi í 75%.
- Íþróttir, sviðslistir og önnur menningarstarfsemi getur farið fram þrátt fyrir 1 metra reglu, þ.e. snertingar eru þar heimilar. Um áhorfendur fer eftir almennum reglum um 1 metra og 200 manns í rými.
Opnunartími vínveitingastaða verður áfram takmarkaður við til kl. 23.00.
Reglugerð heilbrigðisráðherra hefur verið send Stjórnartíðindum til birtingar og tekur sem fyrr segir gildi mánudaginn 7. september.