Hoppa yfir valmynd
6. september 2020 Forsætisráðuneytið, Innviðaráðuneytið, Matvælaráðuneytið

Norðurland fær Demantshring

Við opnun nýs Dettifossvegar í dag.  - mynd

Demantshringurinn, ný 250 kílómetra ferðamannaleið sem tengir saman fjölda áfangastaða á Norðurlandi, var opnaður með formlegum hætti í dag.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra opnuðu leiðina með því að klippa á borða sem strengdur var yfir nýjan Dettifossveg milli Dettifoss og Vesturdals við Jökulsárgljúfur.

Með þessari opnun er hægt að keyra milli Húsavíkur, Goðafoss, Mývatnssveitar, Dettifoss og Ásbyrgis á bundnu slitlagi en kallað hefur verið eftir þessari samgöngubót í áraraðir. Gamli vegurinn milli Dettifoss og Ásbyrgis var torfarinn og ófær stóran hluta ársins.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, var ánægð með daginn: „Demantshringurinn gerir okkur kleift að heimsækja fjöldamargar náttúruperlur á einum degi og mun opna norðausturhornið enn betur fyrir innlendum og erlendum gestum. Það var stórkostlegt að heimsækja Dettifoss í dag en þessi samgöngubót mun verða til þess að fleiri munu heimsækja hann og aðra stórkostlega staði i þessum landshluta.“

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamálaráðherra, tók í sama streng: „Opnun Demantshringsins er stór áfangi fyrir ferðaþjónustu á Norðurlandi. Á óvissutímum í ferðaþjónustu er mikilvægt að huga að uppbyggingu til framtíðar. Ferðamannaleiðir á borð við þessa eru mjög góð nálgun til að vekja athygli á einstakri náttúru þessa svæðis. Allir sem hafa unnið lengi að verkefninu eiga hrós skilið og ég gleðst fyrir hönd þeirra ferðamanna sem munu í fyllingu tímans upplifa náttúruperlur og menningu svæðisins en hefðu mögulega annars farið á mis við þær.“

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgönguráðherra: „Með nýjum Dettifossvegi er langþráðum áfanga náð fyrir samfélagið á Norðausturlandi. Nýr heilsársvegur bætir samgöngur á svæðinu til mikilla muna og styttir vegalengdir á milli byggða. Vegurinn skapar mikil tækifæri og Demantshringurinn, stórbrotin 250 kílómetra leið um náttúru Íslands, verður fyrir vikið enn meira aðdráttarafl fyrir Íslendinga og gesti okkar í framtíðinni. Við samgleðjumst íbúum svæðisins með glæsilega samgöngubót.“

 

 

 

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta