Samið um augasteinsaðgerðir
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur staðfest samning milli Sjúkratrygginga Íslands og LaserSjónar ehf. um augasteinsaðgerðir fyrir sjúkratryggða einstaklinga.
Samningurinn var gerður í kjölfar verðfyrirspurnar þar sem óskað var tilboða í framkvæmd 600 augasteinaðgerða á 12 mánaða tímabili. Í ljósi hagstæðs tilboðs skapast svigrúm til að fjölga aðgerðum á árinu um allt að 10-15%.
Þrír aðilar sem framkvæma augasteinsaðgerðir með greiðsluþátttöku hins opinbera, þ.e. Landspítali, Sjúkrahúsið á Akureyri og LaserSjón.
Samningurinn er til eins árs og tók gildi 1. september síðastliðinn.