Alþjóðlegi jafnlaunadagurinn 18. september
Fyrsti alþjóðlegi jafnlaunadagurinn verður haldinn 18. september nk. Dagurinn er haldinn af alþjóðasamtökum um launajafnrétti (EPIC) sem Ísland á aðild að. Í tilefni jafnlaunadagsins 2020 er boðið til rafræns málþings undir yfirskriftinni Ákall til aðgerða (Call to Action).
Að tillögu Íslands samþykkti mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna ályktun í fyrra um að haldinn skyldi alþjóðlegur jafnlaunadagur 18. september ár hvert. Markmiðið með deginum verður að vekja athygli á aðgerðum sem stuðla að launajafnrétti og að hann verði hvatning til frekari aðgerða til að markmiðið um jöfn laun fyrir jafnverðmæt störf nái fram að ganga í samræmi við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna.
Óleiðréttur launamunur mælist 20% á heimsvísu og 13% innan OECD ríkjanna samkvæmt Alþjóðavinnumálastofnuninni (ILO). Vegna COVID-19 er enn brýnna en áður að þjóðir heims haldi vöku sinni og vinni gegn bakslagi í jafnréttismálum en samkvæmt ILO eru sterkar vísbendingar um að áhrif faraldursins á vinnumarkaðinn komi harðar niður á konum og þær séu í meiri hættu að missa vinnuna en karlar.
Mikilvægt er að stjórnvöld, aðilar vinnumarkaðarins og aðrir hagsmunaaðilar bregðist við og sameinist um Ákall til aðgerða þann 18. september.
Málþingið hefst á sameiginlegu ávarpi þjóðarleiðtoga þeirra þjóða sem eiga aðild að EPIC, þar á meðal frá Guðna Th. Jóhannessyni forseta Íslands og forystufólki alþjóðlegra samtaka sem koma að EPIC, s.s. ILO, OECD, Alþjóðasamtök atvinnurekenda (IOE), Alþjóðasamtök verkalýðshreyfinga (ITUC) og UN Women.
Að loknum ávörpum fara fram pallborðsumræður með þátttakendum úr röðum fræðasamfélagsins, verkalýðssamtaka, atvinnurekenda, stjórnvalda og aðgerðasinna. Fulltrúi Íslands í pallborði verður Þorsteinn Víglundsson, forstjóri og fyrrverandi alþingismaður og félags- og jafnréttismálaráðherra.
Málþingið hefst kl. 13:00 að íslenskum tíma.