Hoppa yfir valmynd
14. september 2020 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

OECD hvetur ríki til grænnar endurreisnar efnahagslífs

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, og Sigríður Auður Arnardóttir, ráðuneytisstjóri umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, á OECD fjarfundi. - mynd

Mikilvægt er að tryggja að endurreisn efnahags og samfélags eftir Covid-19 faraldurinn byggi á grænum lausnum. Þetta sagði Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, á fundi umhverfis- og fjármálaráðherra OECD í dag. Viðbrögð íslenskra stjórnvalda við faraldrinum væru með sterkum grænum áherslum, m.a. væri þar gert ráð fyrir enn hraðari uppbyggingu innviða fyrir orkuskipti á sjó og landi og aukinni kolefnisbindingu með landgræðslu og skógrækt, hraðari innleiðingu hringrásarhagkerfis, endurheimt vistkerfa og nýsköpun.

Efnahags- og framfarastofnunin, OECD, stendur fyrir fundaröð ráðherra um ákveðin áherslumál í aðdraganda ráðherrafundar stofnunarinnar í haust. Á fundinum í dag var sérstaklega rætt um umhverfismál í tengslum við áform um endurræsingu efnahagslífsins eftir faraldurinn. Fundurinn fór fram í gegnum fjarfundabúnað.

OECD segir að nú sé einstakt tækifæri til þess að samþætta grænar áherslur í uppbyggingu efnahagslífsins, svo árangur náist til langs tíma. OECD metur m.a. að niðurgreiðslur á jarðefnaeldsneyti hafi numið 582 milljörðum Bandaríkjadala árið 2019 á heimsvísu. Nauðsynlegt sé að draga úr slíkum niðurgreiðslum og beina fjármagni í endurnýjanlega orkugjafa. Hrein orkuskipti geti skapað störf; öflug uppbygging endurnýjanlegrar orku geti skapað um 40 milljónir starfa á heimsvísu á komandi áratugum. Þá þurfi umskiptin að vera sanngjörn og útfærð með þeim hætti að ekki bitni á þeim fátækari í samfélaginu.

Umhverfisráðherra sagði kórónuveirufaraldurinn hafa sýnt okkur að við værum fær um að bregðast hratt við brýnum vanda. Mikilvægt væri að styðjast við vísindi við ákvarðanatöku,  og grænar áherslur við endurreisn efnahagslífsins væru ekki bara rétta viðbragðið heldur líka það sem nauðsynlegt væri að gera. Hann lagði áherslu á að íslensk stjórnvöld hefðu endurskoðað aðgerðaáætlun sína í loftslagsmálum sem sýni að Ísland muni gera betur en alþjóðlegar skuldbindingar okkar samkvæmt Parísarsamkomulaginu krefjast af okkur, og m.a. sett aukið fjármagn í að flýta aðgerðum í orkuskiptum, kolefnisbindingu og nýjum lausnum.

Ráðherra sagði einnig frá aukinni áherslu Íslands á hringrásarhagkerfið og úrgangsmál, m.a. með nýrri aðgerðaáætlun stjórnvalda um varnir gegn plastmengun. Þá greindi ráðherra fundinum frá stórauknu fjármagni til nýsköpunar hérlendis, sem myndi nýtast til þróunar grænna lausna.

  • Hluti þátttakenda á fjarfundi umhverfis- og fjármálaráðherra OECD  - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta