Viðurkenningar á Degi íslenskrar náttúru
Umhverfis- og auðlindaráðherra, Guðmundur Ingi Guðbrandsson veitti í dag á Degi íslenskrar náttúru Arnhildi Hálfdánardóttur fjölmiðlaverðlaun umhverfis- og auðlindaráðuneytisins og Kára Kristjánssyni Náttúruverndarviðurkenningu Sigríðar í Brattholti.
Dómnefnd skipuð fagfólki úr fjölmiðlum valdi handhafa Fjölmiðlaverðlaunanna en í henni sátu Margrét Marteinsdóttir formaður, Kjartan Hreinn Njálsson og Sveinn H. Guðmarsson.
Var það niðurstaða dómnefndar að veita Arnhildi Hálfdánardóttir, dagskrárgerðarkonu á RÚV, verðlaunin fyrir þáttaröðina Loftslagsþerapían sem var á dagskrá Rásar 1 síðastliðinn vetur.
Segir í rökstuðningi dómnefndar að með þáttunum hafi Arnhildur skoðað ýmsa snertifleti loftslagsbreytinga við hið mannlega, meðal annars pólitík og siðferði. „Hún fer líka yfir sögu á mælingum á losun koltvísýrings frá því að hún var fyrst sett í samhengi við hlýnun jarðar og rifjar upp náttúruhamfarir síðustu ár og áratugi. Fyrst og fremst rýnir Arnhildur þó í viðbrögð og líðan fólks. Hún skoðar pólitíkina í kringum loftslagsmálin og spyr hvort hún sé hluti af lausninni eða standi í vegi fyrir henni og hún reynir að kryfja vandann með hjálp siðfræðinnar og trúarbragða. Hún ræðir við fjölbreyttan hóp fólks, meðal annars fræðafólk og aðgerðasinna en líka nokkra ástvini sína auk þess að segja frá eigin líðan og hugsunum,“ segir í rökstuðningnum. Hljóðmynd þáttanna sé afar falleg og Arnhildi hafi tekist með bæði orðum og tónum að nálgast staðreyndir um eitt mest aðkallandi umfjöllunarefni samtímans á hlýjan og listrænan hátt.
Verðlaunagripur Fjölmiðlaverðlaunanna nefnist Jarðarberið og er eftir Finn Arnar Arnarson. Er hann í formi krækibers með örlitlu Íslandi á, sem með því endurspeglar jörðina í berinu.
Í umsögn ráðherra vegna Náttúruverndarviðurkenningar Sigríðar í Brattholti kemur m.a. fram að Kári, sem stundum hafi verið talað um sem landvörð Íslands, hafi sinnt náttúruvernd af miklum áhuga og eldmóði undanfarna áratugi. Hann hafi verið baráttumaður í stórum náttúruverndarmálum sem smáum og sé laginn við að smita aðra af virðingu fyrir landinu með orðum sínum og gjörðum. „Djúpt innsæi og skilningur á náttúrunni, menningu og sögu einkennir Kára í störfum hans og hann er einstökum hæfileikum gæddur til að miðla þekkingu sinni til annarra. “ segir í umsögninni. „Kári hefur þróað aðferð til að flytja til gamburmosaþembur og koma þeim fyrir þar sem álagssár og villustígar hafa myndast og þannig náð að loka ljótum sárum, einkum í kringum Lakagíga, einu viðkvæmasta svæði íslenskrar náttúru. Þá er gestamóttaka sem stunduð er af landvörðum í Lakagígum úthugsað hugarfóstur Kára og aðferðarfræði sem smám saman er að breiðast út um allt land þar sem tekið er á móti hverjum einasta gesti og hann upplýstur um undur svæðisins, umgengnisreglur og verndargildi.“