Ísland styður rannsókn á mannréttindabrotum í Hvíta-Rússlandi.
Ísland var í hópi 17 aðildarríkja ÖSE, sem settu í dag af stað skoðun sérfræðinga, til að rannsaka alvarleg mannréttindabrot og misnotkun fyrir og eftir forsetakosningarnar í Hvíta-Rússlandi 9. ágúst sl. Þetta var gert með því að virkja Moskvu-aðferðina-svokölluðu, sem gert er, þegar alvarleg ógn steðjar að mannréttindum og öryggi á ÖSE-svæðinu. Á fastaráðsfundi síðdegis í dag var fastafulltrúa Hvíta-Rússlands afhent bréf, undirritað af fastafulltrúum ríkjanna 17 aðildarríkja, þ. m. t. Íslands, þess efnis að ferlið hefði verið sett í gang.
Sérfræðinganefndin mun m. a. rannsaka ofsóknir og fangelsanir á hendur stjórnarandstæðingum, fjölmiðlafólki og verjendum mannréttinda, auk pyntinga og ómanneskjulegrar meðferðar á föngum og ofbeldis gagnvart friðsamlegu andófsfólki.