Samið um fimm milljóna framlag til að endurnýja búnað til bíltæknirannsókna
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, undirritaði í morgun samning um fimm milljóna króna framlag til að endurnýja mikilvægan búnað í Bíltæknimiðstöðinni, rannsóknarsetri vegna alvarlegra umferðarslysa á Selfossi. Lögreglan á Suðurlandi hefur starfrækt miðstöðina frá árinu 2009 en á hverju ári eru 20-40 ökutæki tekin þar til rannsóknar. Þorkell Ágústsson, forstöðumaður Rannsóknarnefndar samgönguslysa, og Kjartan Þorkelsson, lögreglustjóri á Suðurlandi, undirrituðu einnig samninginn.
Endurnýjun tækjabúnaðar í Bíltæknimiðstöðinni er nauðsynleg til þess að rannsóknir miðstöðvarinnar byggist á bestu tækni. Frá því að miðstöðinni var komið á laggirnar á Selfossi árið 2009 hafa tækniframfarir í bílaiðnaði verið hraðar.
„Rannsóknir á vegum Bíltæknimiðstöðvarinnar hafa reynst þýðingarmiklar og nýst vel í þágu umferðaröryggis. Niðurstöður þeirra eru aðgengilegar Rannsóknarnefnd samgönguslysa og nýtast við rannsókn slysa á þeirra vegum. Ýmsar tillögur rannsóknarnefndarinnar í öryggisátt hafa átt uppruna sinn í rannsóknum í miðstöðinni. Þá hafa þær einnig nýst til að forgangsraða framkvæmdum á hættulegum stöðum í vegakerfinu og umhverfi þess,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.
Við rannsóknir og greiningu á orsökum umferðarslyss eru fyrst og fremst kannaðir þrír meginþættir sem hver um sig getur valdið slysi. Í fyrsta lagi ástand ökumanns og þau mannlegu mistök sem geta valdið slysi. Í annan stað ástand og umhverfi vegar sem og áhrif þess á aðdraganda slyss og loks ástand ökutækisins sjálfs en þær rannsóknir fara fram í Bíltæknimiðstöðinni.
Kostnaður við rannsóknirnar sjálfar og daglegur rekstur Bíltæknimiðstöðvarinnar er fjármagnaður af lögreglu og málskostnaðarsjóði. Tækjabúnaður hefur á hinn bóginn verið fjármagnaður með öðrum framlögum, t.a.m. frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu í þágu starfsemi Rannsóknarnefndar samgönguslysa.