Styrkir úr lýðheilsusjóði lausir til umsóknar
Embætti landlæknis hefur auglýst lausa til umsóknar styrki úr lýðheilsusjóði árið 2021. Styrkjum úr sjóðnum skal varið til að styrkja lýðheilsustarf og úthlutar heilbrigðisráðherra styrkjunum að fengnum tillögum stjórnar sjóðsins. Umsóknarfrestur er til 15. október næstkomandi.
Að þessu sinni er auglýst eftir verkefnum sem snúast um aðgerðir sem miða að því að efla geðheilsu, efla félagsfærni og draga úr einmanaleika, aðgerðum sem miða að heilbrigðu mataræði, svefni og hreyfingu, verkefnum sem tengjast kynheilbrigði, verkefnum á sviði áfengis- vímu- og tóbaksvarna og verkefnum sem beinast að minnihlutahópum til að stuðla að jöfnuði til heilsu.
Lýðheilsusjóður er starfræktur á grundvelli laga um landlækni og lýðheilsu. Yfir honum er þriggja manna stjórn, skipuð af heilbrigðisráðherra, sem í eiga sæti einn fulltrúi tilnefndur af embætti landlæknis, einn tilnefndur af heilbrigðisvísindasviði Háskóla Íslands og formaður sem ráðherra skipar án tilnefningar.
Síðast úthlutaði heilbrigðisráðherra 90 milljónum króna úr lýðheilsusjóði til 144 verkefna á sviði geðræktar, næringar, hreyfingar og tannverndar, auk áfengis-, vímu- og tóbaksvarna.