Hoppa yfir valmynd
18. september 2020 Heilbrigðisráðuneytið

Fjármagn fyrir legudeildarbyggingu við Sjúkrahúsið á Akureyri í fjármálaáætlun

Sjúkrahúsið á Akureyri - mynd

Gert er ráð fyrir 6,5 milljörðum króna í framkvæmdir við nýbyggingu fyrir nýja legudeild við Sjúkrahúsið á Akureyri á tíma fjármálaáætlunar árin 2021–2025. Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra greindi frá þessu þegar hún ávarpaði ársfund Sjúkrahússins á Akureyri í gær.

Undanfarin ár hafa nokkrir vinnuhópar á vegum Sjúkrahússins á Akureyri fjallað um framtíðaruppbyggingu og nýtingu húsnæðis við sjúkrahúsið á Akureyri. Niðurstaða þessarar vinnu er sú að ný legudeildarbygging sé eini raunhæfi kosturinn til að leysa húsnæðisvanda sjúkrahússins. Í fjáraukalögum þessa árs var Sjúkrahúsinu á Akureyri úthlutað 80 milljónum króna til að hefja frumathugun og gerð útboðsgagna fyrir nýja legudeildarbyggingu. Verkefnið er nú til umfjöllunar hjá Framkvæmdasýslu ríkisins.

Ný legudeildarbygging hefur verið á dagskrá hjá Sjúkrahúsinu á Akureyri í mörg ár: „Hjá mér hefur það verið sérstakt áhugamál og ég lagt á það áherslu í embætti að tryggja þessa framkvæmd í fjármálaáætlun“ sagði Svandís Svavarsdóttir í ávarpi sínu og jafnframt að þetta væri eitt þeirra mála sem hún væri hvað stoltust af á sinni tíð sem heilbrigðisráðherra.

Ný legudeildarbygging mun gjörbreyta aðstæðum sjúklinga sem við núverandi aðstæður liggja á fjölbýlum, auk þess sem skortur er á einangrunarherbergum. Einnig er húsnæði geðdeildarinnar ekki eins og best verður á kosið fyrir starfsemina og staðsetning hennar óhentug.

Ráðherra nefndi einnig að fyrir lægi ákvörðun um fjármagn til að endurnýja myndgreiningarbúnað við Sjúkrahúsið á Akureyri og enn fremur að heimild hafi verið veitt sjúkrahúsinu til greininga á verusýnum sem gerir sjúkrahúsinu m.a. kleift að annast greiningu sýna vegna COVID-19.

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta