Hoppa yfir valmynd
18. september 2020 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Uppbygging á Austurlandi í kjölfar reglugerðarbreytingar ráðherra

Frá heimsókn Ásmundar Einars Daðasonar, félags- og barnamálaráðherra, á Seyðisfjörð. - mynd

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, heimsótti Seyðisfjörð og Borgarfjörð Eystri í vikunni og kynnti sér uppbyggingu í húsnæðismálum á svæðinu. Á báðum stöðum eru í farvatninu verkefni sem fóru í gang eftir að ráðherra gerði  breytingar á reglugerð sem gerir það að verkum að sveitarfélög, einstaklingar og óhagnaðardrifin félög á landsbyggðinni geti tekið lán hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) til húsnæðisuppbyggingar á stöðum þar sem önnur fjármögnun er ekki í boði.

Á Seyðisfirði er þróun húsnæðiskjarna fyrir 55 ára og eldri í fullum gangi þar sem fyrirhugað er að byggja allt að átta 2-3 herbergja íbúðir og er gert ráð fyrir að framkvæmdir hefjist mjög fljótlega. Verkefnið er hluti af tilraunaverkefni um uppbyggingu í húsnæðismálum á landsbyggðinni og fékk sveitarfélagið styrk frá HMS til þróunar á verkefninu, ásamt úthlutun stofnframlaga og sérstaks byggðaframlags. Þá verður framkvæmdin að öllum líkindum fjármögnuð með lánum frá HMS.

Á Borgarfirði Eystri kynnti ráðherra sér byggingu á tveimur parhúsum með samtals fjórum íbúðum en undirstöður húsanna voru nýlega steyptar. Sveitarfélagið fékk úthlutað stofnframlögum til þess að koma framkvæmdinni af stað en um er að ræða fyrstu nýbyggingu á Borgarfirði Eystri síðan 1985. Ljóst er að ekki hefði verið ráðist í þessa framkvæmd ef sveitarfélagið hefði ekki getað leitað til HMS varðandi fjármögnun.

Ásmundur Einar Daðason, félags-og barnamálaráðherra: „Það er gaman að sjá að þessi breyting á reglugerðinni er að skila sér af krafti á staði eins og Seyðisfjörð og Borgarfjörð Eystri þar sem lítið sem ekkert hefur verið byggt af íbúðarhúsnæði undanfarna áratugi vegna markaðsbrests. Með reglugerðarbreytingunni er hægt að fá lán til byggingar nýs húsnæðis á svæðum sem glíma við þetta sérstaka misvægi í byggingarkostnaði og markaðsverði, sem aftur styður svo við atvinnuuppbyggingu á svæðinu.

 

 

  • Ráðherra kynnir sér nýbygginguna á Borgarfirði Eystri.  - mynd

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta