Hoppa yfir valmynd
22. september 2020 Heilbrigðisráðuneytið

Ráðherra styrkir Rótina um 10 milljónir króna til nýsköpunarverkefnisins Ástuhúss

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra - myndHeilbrigðisráðuneytið

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur veitt Rótinni; félagi áhugakvenna um konur, áföll og vímugjafa, 10 milljóna króna styrk til uppbyggingar nýsköpunarverkefnisins Ástuhúss. Ástuhús er hugsað sem meðferðarúrræði þar sem konur geta nálgast þjónustuna á annan hátt en hefð er fyrir í núverandi fíkniefnameðferðarkerfi, meðal annars með ríkri áherslu á göngudeildarmeðferð.

Rótin hefur allt frá stofnun félagsins unnið að vitundarvakningu um nauðsyn þess að nútímavæða bæði stefnumótun og þjónustu er varðar neyslu- og fíknivanda, sérstaklega er snýr að konum og börnum. Starf félagsins hefur þróast út í það að bjóða konum með neyslu- og fíknivanda og áfallasögu upp á þjónustu til að styðja þær í að endurheimta styrk sinn og sjálfstæði.

Meðal þess sem talskonur Rótarinnar hafa bent á er að framboð meðferðarúrræða sé ekki nægilega fjölbreytt og taki ekki sem skyldi mið af þörfum kvenna og barna. Í Ástuhúsi verður boðið upp á margvíslega þjónustu og meðferð og einnig verður konum vísað í þau úrræði sem fyrir eru í samfélaginu þegar við á. Markmið þjónustunnar er öryggi, nærgætni og skaðaminnkun ásamt stuðningi við konur til að endurheimta styrk sinn og sjálfstæði. Auk áherslu á að styrkja konurnar til sjálfshjálpar og sjálfstæðis er ætlunin að huga sérstaklega að samspili fíknar og heimilisofbeldis.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir ríka ástæðu til að gefa sjónarmiðum Rótarinnar gaum og styðja við aukna fjölbreytni á sviði meðferðar við neyslu- og fíknivanda miðað við ólíkar þarfir: „Við vitum að konur geta átt erfitt með að fara frá fjölskyldum sínum til þess að sækja sér meðferð og því geta göngudeildarúrræði hentað þeim vel. Síðast en ekki síst eru sterkar vísbendingar um að göngudeildarúrræði geti skilað góðum árangri, ekki síst fyrir konur.“ Ráðherra segir jafnframt að við endurskoðun meðferðarstarfs þurfi einnig að breyta fjármögnuninni þannig að fjárveitingum til málaflokksins verði stýrt í gegnum þjónustusamninga sem Sjúkratryggingar Íslands geri við þjónustuveitendur í samræmi við skilgreind markmið.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta