Utanríkisráðherra áréttaði gildi fjölþjóðlegrar samvinnu
Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, tók í dag þátt í fjarfundi bandalags ríkja til eflingar fjölþjóðakerfisins í tengslum við 75. allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna sem nú stendur yfir í New York.
Á fundinum ræddu utanríkisráðherrar yfir sjötíu ríkja leiðir til að efla fjölþjóðlega samvinnu um uppbyggingu í kjölfar heimsfaraldurs kórónaveiru.
Í ávarpi sínu lagði Guðlaugur Þór áherslu á þann góða árangur sem fjölþjóðleg samvinna hefur skilað, en áréttaði jafnframt að fjölþjóðastofnanir þurfi nú að aðlagast breyttum tímum og líta fram á veginn. Þá vísaði hann til mikilvægi þess að jafnréttismálum væri haldið á lofti í þessu samhengi.
„Að endingu vil ég hvetja öll aðildarríki Sameinuðu þjóðanna til að vinna með okkur að því að tryggja að fjölþjóðakerfið verði áfram vettvangur fyrir allar þjóðir til þess að stuðla að sameiginlegum markmiðum okkar," sagði Guðlaugur Þór í lok ræðu sinnar.
Á fundinum fóru ríkin yfir helstu áherslur sínar varðandi uppbyggingu á tímum COVID19 og fjölþjóðlega samvinnu. Sérstök þemu fundarins voru: umhverfismál, tækni, jafnréttismál og heilsa.
Bandalag ríkja til eflingar fjölþjóðakerfisins var sett á fót á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í september 2019 að frumkvæði utanríkisráðherra Frakklands og Þýskalands.