Hoppa yfir valmynd
1. október 2020 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Aðgengi að heimavist tryggt fyrir nemendur við Fjölbrautarskóla Suðurlands

Samningur um rekstur heimavistar fyrir nemendur Fjölbrautaskóla Suðurlands (FSu) hefur verið undirritaður og verður heimavistin formlega opnuð í dag, 1. október.  Með því rætist langþráður draumur nemenda, aðstandenda þeirra og skólastjórnenda því ríkuleg þörf er fyrir þjónustuna á því stóra svæði sem skólinn þjónustar.

Margir hafa komið að lausn þessa mikilvæga máls. Sérstakur starfshópur Sambands sveitarfélaga á Suðurlandi fjallaði um nauðsyn þess að húsnæðisúrræði væru í boði fyrir nemendur FSu og sendi sambandið mennta- og menningarmálaráðherra ályktun þar um haustið 2019. Það var í þriðja sinn sem slík ályktun var send ráðuneytinu því fyrrverandi ráðherrar fengu sambærileg erindi haustið 2017 og vorið 2016. Þá hafði eldri heimavist verið lögð niður, þar sem ekki náðust samningar við nýja eigendur húsnæðis sem áður hýsti heimavistina.

Starfsfólk ráðuneytisins tók málið til skoðunar með hagaðilum haustið 2019 og gerði tillögur til ráðherra, sem ákvað að kannaður yrði möguleikinn á því að leigja húsnæði á Selfossi og starfrækja þar heimavist. Skólanefnd og skólameistari gripu þá boltann og hafa undirritað samning við Selfoss Hostel um afnot af rými sem áður hýsti ferðamenn. Fram að áramótum verða 10 herbergi í boði en um áramótin fjölgar þeim í 15.

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra:
„Það er mikið réttlætismál, að nemendur sem búa fjarri skóla geti nýtt úrræði af þessu tagi. Ég fagna árangrinum og er þakklát þeim sem hafa barist fyrir lausn málsins frá því að eldri heimavist lagðist af. Aðstaðan er til mikillar fyrirmyndar og það er ljóst að ekki mun væsa um ungmennin, hvorki í vel búnum herbergjum né sameiginlegum rýmum. Það er ástæða til að óska skólanum og nemendum hans til hamingju með tímamótin.“

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta