Hoppa yfir valmynd
1. október 2020 Utanríkisráðuneytið

ESA birtir frammistöðumat

Röskun á störfum þingsins og stjórnarráðsins vegna heimsfaraldurs er á meðal skýringa á að óinnleiddum tilskipunum og reglugerðum ESB hefur fjölgað hér á landi að undanförnu. Staða innleiðinga á tilskipunum ESB hér á landi helst samt áfram betri en hún hefur lengst af verið.

Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hefur birt reglubundið frammistöðumat sitt en um er að ræða fyrra matið af tveimur vegna innleiðingarstöðu á árinu 2020. Samkvæmt matinu átti eftir að innleiða 1,2 prósent tilskipana ESB hér á landi á viðmiðunardagsetningu frammistöðumatsins, 31. maí sl., samanborið við 0,6 prósent í frammistöðumatinu fyrir tímabilið á undan. Alls töldust tíu tilskipanir óinnleiddar, þar af eru níu á sviði fjármálaþjónustu.

Innleiðingarstaða Noregs versnar einnig og fer úr 0,3 prósentum í 0,6 prósent en staða Liechtenstein helst óbreytt í 0,9 prósentum.

Á undanförnum tveimur árum hefur mjög dregið úr innleiðingarhalla Íslands. Á árunum 2018 og 2019 var innleiðingarhalli á bilinu 0,5-1,0 prósent í fjögur skipti í röð, sem er innan viðmiðunarmarka sem sett hafa verið á innri markaði EES-svæðisins. Til samanburðar náði innleiðingarhalli Íslands hámarki á fyrri hluta ársins 2013, þegar hann nam 3,2 prósentum.
Í frammistöðumati ESA kemur jafnframt fram að óinnleiddum reglugerðum hefur fjölgað verulega, eða úr 47 í 211. Þar af eru 206 reglugerðir vegna fjármálaþjónustu. Ef fjármálaþjónustan er undanskilin eru þannig samanlagt einungis ein tilskipun og fimm reglugerðir taldar óinnleiddar á öllum öðrum sviðum EES-samningsins.

Meginskýringin á fjölda óinnleiddra gerða á sviði fjármálaþjónustu liggur í miklum fjölda slíkra gerða var tekinn upp í EES-samninginn í fyrra, alls 274 talsins. Undanfarin ár hafa verið viðvarandi miklar tafir á upptöku gerða á þessu sviði í samninginn og myndast langur halli af gerðum sem biðu upptöku.. Á síðasta ári og fyrri hluta þessa árs hefur að mestu leyti tekist að vinna á þeim upptökuhalla. Þannig fækkaði gerðum á þessu sviði sem biðu upptöku í samninginn úr 281 í ársbyrjun 2019 í 107 í byrjun þessa árs og um mitt þetta ár biðu einungis 64 slíkar gerðir upptöku í samninginn. Nokkurn tíma tekur að innleiða þennan mikla fjölda fjármálagerða sem tekinn hefur verið upp í samninginn á tiltölulega stuttu tímabili og þar með myndast tímabundinn innleiðingarhalli.
 
Þá hefur kórónuveirufaraldurinn og sú röskun sem hann hefur valdið á þingstörfum og störfum innan stjórnarráðsins orðið til þess að ekki hefur náðst að afgreiða lagafrumvörp sem liggja til grundvallar innleiðingu á allstórum hluta þessara fjármálagerða. Stefnt er að framlagningu slíkra lagafrumvarpa á komandi þingi.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta