Garðabær bætist í ört stækkandi hóp sveitarfélaga sem taka þátt í verkefninu Barnvæn sveitarfélög
Ásmundur Einar Daðason félags- og barnamálaráðherra, Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi og Gunnar Einarsson, bæjarstjóri Garðabæjar undirrituðu í gær, 1. október, samstarfssamning um verkefnið Barnvæn sveitarfélög. Með undirskriftinni bætist Garðabær í sístækkandi hóp sveitarfélaga sem hefja nú vinnu við að innleiða Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna í stjórnsýslu sína með stuðningi félagsmálaráðuneytisins og UNICEF á Íslandi. Í kjölfar undirskriftarinnar eru sveitarfélögin orðin ellefu talsins.
Verkefnið miðar að því að byggja upp breiðfylkingu sveitarfélaga á Íslandi sem láta sér mannréttindi barna varða, með Barnasáttmálann að leiðarljósi og auknu samstarfi milli ríkis og sveitarfélaga.
Öll sveitarfélög verði Barnvæn sveitarfélög
Akureyrarbær hóf vinnu við að verða Barnvænt sveitarfélag árið 2016, og varð í lok maí fyrst sveitarfélaga á Íslandi til að hljóta þá viðurkenningu. Áhugi á þátttöku í verkefninu hefur verið mikill og biðlistar myndast. Þann 18. nóvember 2019, í tilefni af 30 ára afmæli Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna gengu félags- og barnamálaráðherra og UNICEF á Íslandi til samstarfs við framkvæmd verkefnisins undir formerkjum Barnvæns Íslands. Markmið samstarfsins er að tryggja aðgengi allra sveitarfélaga að stuðningi við innleiðingu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna á næstu tíu árum. Með þátttöku Garðabæjar í verkefninu búa í dag um 40% barna á Íslandi í sveitarfélagi sem innleiðir Barnasáttmálann með markvissum hætti. En á næstu tveimur árum er stefnt að því að vel á annan tug sveitarfélaga bætist í hópinn.
Barnvæn sveitarfélög vinna markvisst að því að uppfylla réttindi barna
Hugmyndafræði Barnvænna sveitarfélaga byggir á alþjóðlegu verkefni UNICEF, Child Friendly Cities, en það hefur verið innleitt í hundruðum sveitarfélaga um allan heim. Barnvæn sveitarfélög vinna markvisst að því að uppfylla réttindi barna og UNICEF á Íslandi styður sveitarfélögin í innleiðingu sinni á Barnasáttmálanum.
Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra: „Það eru gleðileg tíðindi að Garðabær bætist í ört stækkandi hóp sveitarfélaga sem vinna að því að öðlast viðurkenningu sem Barnvæn sveitarfélög. Markviss innleiðing Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna skiptir gríðarlega máli fyrir velferð barna. Með öflugu samstarfi ríkis og sveitarfélaga stígum við stór skref saman fyrir réttindi barna á Íslandi“
Gunnar Einarsson, bæjarstjóri Garðabæjar: ,,Það er okkur mikil ánægja í Garðabæ að halda áfram vegferð við innleiðingu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna en skref í þá átt hafa verið tekin á undanförnum misserum í starfi sveitarfélagsins. Skólar í Garðabæ hafa unnið margvísleg verkefni á undanförnum árum í tengslum við Barnasáttmálann og heimsmarkmið sameinuðu þjóðanna. Gaman er að geta þess að Flataskóli í Garðabæ var einn af tveimur fyrstu skólum á Íslandi til að fá titilinn réttindaskóli UNICEF fyrir nokkrum árum þar sem unnið er markvisst að því að starfsfólk skóla, foreldrar og aðrir sem tengjast skólunum þekki réttindi barna og beri virðingu fyrir þeim. Það er mikið tilhlökkunarefni fyrir Garðabæ að taka þátt í verkefninu Barnvæn samfélög með stuðningi Félagsmálaráðuneytisins og UNICEF og sýna það í verki að stefnumótun og ákvarðanataka sveitarfélagsins taki mið af Barnasáttmálanum sem og heimsmarkmiðum sameinuðu þjóðanna“
Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi: „Verkefnið Barnvæn sveitarfélög miðar að því að tryggja að réttindi og hagsmunir barna séu ávallt hafðir að leiðarljósi í starfsemi sveitarfélaga. Verkefnið er gríðar mikilvægt því öll helsta nærþjónusta barna og ungmenna á Íslandi er á forsvari sveitarfélaganna. Það er virkilega ánægjulegt að sjá hversu mörg sveitarfélög eru tilbúin til að koma með okkur í þessa vegferð. Með þátttöku Garðabæjar sem staðfest er í dag búa um 40% barna á Íslandi í sveitarfélögum sem hafa Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna að leiðarljósi í öllu sínu starfi. Það er magnaður árangur - en við erum hvergi nærri hætt!“
Nánari upplýsingar um Barnvæn sveitarfélög eru aðgengilegar á vefsíðunni www.barnvaensveitarfelog.is og geta áhugasamir einstaklingar, kjörnir fulltrúar og starfsfólk sveitarfélaga nálgast þar allar nauðsynlegar upplýsingar um innleiðingu Barnasáttmálans.