Hoppa yfir valmynd
2. október 2020 Heilbrigðisráðuneytið

Þingmál heilbrigðisráðherra á 151. löggjafarþingi

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra - myndHeilbrigðisráðuneyti

Heilbrigðisráðherra áformar að leggja 11 lagafrumvörp og tvær þingsályktunartillögur fyrir Alþingi á 151. löggjafarþingi sem sett var í gær. Af einstökum þingmálum má nefna frumvarp til breytinga lögum um lífsýnasöfn sem tryggja á að gagnagrunnar og lífsýnasöfn innan heilbrigðiskerfisins séu opin vísindamönnum sem hafa tilskilin leyfi til vísindarannsókna. Frumvarp um endurskoðun sóttvarnalaga verður lagt fram í janúar og tillaga til þingsályktunar um lýðheilsustefnu í mars. Hér á eftir eru talin öll þingmál ráðherra ásamt stuttri umfjöllun um hvert þeirra:

Frumvarp til laga um breytingu á lögum um lífsýnasöfn og söfn heilbrigðisupplýsinga og lögum um vísindarannsóknir á heilbrigðissviði (aðgangur að heilbrigðisgögnum).
Eitt af stefnumiðum heilbrigðisstefnunnar er að gagnagrunnar og lífsýnasöfn innan heilbrigðiskerfisins séu opin og aðgengileg vísindamönnum sem öðlast hafa tilskilin leyfi til vísindarannsókna. Með núverandi lögum er aðgengi vísindamanna að gagnagrunnum og lífsýnasöfnum innan heilbrigðiskerfisins ekki nægilega vel tryggt til þess að stuðla að framangreindu stefnumiði heilbrigðisstefnunnar. Með frumvarpinu er stefnt að því að ná því markmiði að gagnagrunnar og lífsýnasöfn innan heilbrigðiskerfisins verði opin og aðgengileg vísindamönnum sem hafa tilskilin leyfi. Október.

Frumvarp til laga um lækningatæki. 
Frumvarpið felur í sér innleiðingu á reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2017/745, (ESB) 2017/746 og (ESB) 2020/561, um lækningatæki. Um er að ræða frumvarp til nýrra heildarlaga um lækningatæki. Með frumvarpinu er skerpt á þeim kröfum sem lækningatæki þurfa almennt að uppfylla. Gerðar eru auknar kröfur til framleiðanda lækningatækja, m.a. varðandi eftirfylgni með lækningatækjum á markaði. Auknar kröfur eru gerðar til klínískra rannsóknar, m.a. um gæði gagna og aðgang að gögnum. Þá verður með frumvarpinu sett upp auðkenniskerfi í þeim tilgangi að geta rakið lækningatækið, m.a. til að koma í veg fyrir fölsuð tæki. Innleiðing. Endurflutt. Október.

Frumvarp til laga um breytingu á lögum um slysatryggingar almannatrygginga, nr. 45/2015 (ýmsar breytingar). 
Frumvarpið felur í sér endurskoðun á slysahugtaki laganna og ákvæðum laganna er varða bótarétt vegna slysa við ferðir til og frá vinnu auk þess sem afmarka þarf hugtök og atvinnusjúkdóma. Jafnframt verður lagt til að kveðið verði með skýrari hætti á um það á hvers konar örorkumati varanleg örorka slysatrygginga almannatrygginga byggist. Nóvember.

Frumvarp til laga um breytingu á sóttvarnalögum, nr. 19/1997 (opinberar sóttvarnaráðstafanir). 
Endurskoðun á IV. kafla laganna um opinberar sóttvarnaráðstafanir á grundvelli fenginnar reynslu. Lagt er til að skýra betur þau úrræði sem sóttvarnalæknir og ráðherra geta gripið til vegna hættu á farsóttum til eða frá Íslandi, innan lands og hættu á útbreiðslu smits frá einstaklingum. Janúar.

Frumvarp til laga um breytingu á lögum um málefni aldraðra, nr. 125/1999 (hlutverk og fjöldi færni- og heilsumatsnefnda).
Með frumvarpinu verður lagt til að fækka færni- og heilsumatsnefndum úr sjö í eina. Febrúar.

Frumvarp til laga um breytingu á lögum um ávana- og fíkniefni, nr. 65/1974 (varsla). 
Frumvarpið felur í sér breytingu á ákvæði laganna um vörslu og meðferð á þann hátt að heimila vörslu ávana- og fíkniefna sem teljast til eigin nota. Febrúar.

Frumvarp til laga um breytingu á lögum um sjúklingatryggingu, nr. 111/2000 (tryggingar í lyfjarannsóknum).
Frumvarpið felur í sér útvíkkun á tryggingarvernd laga um sjúklingatryggingu, nr. 111/2000, þannig að verndin nái yfir þátttakendur í klínískum lyfjarannsóknum á heilbrigðisstofnunum þar sem rann-sakendur eru ekki með bakhjarl. Febrúar.

Frumvarp til laga um breytingu á lögum um landlækni og lýðheilsu, nr. 41/2007 (kvörtun til landlæknis). 
Með frumvarpinu verða lagðar til breytingar á ákvæðum laganna sem snúa að kvörtunum vegna heilbrigðisþjónustu. Lagt er til að skýra nánar tilgang ákvæðanna og málsmeðferð í kvörtunarmálum. Febrúar.

Frumvarp til laga um breytingu á lögum um réttindi sjúklinga, nr. 74/1997 (þvinguð meðferð, inngrip og önnur valdbeiting). 
Frumvarpið felur í sér nánari skýringu á hugtakinu meðferð og hvað telst til þvingana. Bætt verður við ákvæðum um málsmeðferð vegna ákvarðana um þvingaða meðferð. Mars.

Frumvarp til laga um breytingu á lögum um rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur, nr. 87/2018 (nikótínvörur, eftirlit o.fl.). 
Með frumvarpinu verða annars vegar lagðar til breytingar varðandi rafrettur í þeim tilgangi að skýra frekar eftirlit með auglýsingabanni því sem kveðið er á um í lögunum. Jafnframt verður sá hluti laganna endurskoðaður er lýtur að almennum eftirlits- og valdheimildum. Hins vegar verða lögð til nýmæli til að koma á sambærilegri umgjörð um innflutning, sölu og eftirlit með nikótínvörum, m.a. nikótínpúðum, á Íslandi með hliðsjón af þeim reglum er gilda í Evrópu, sér í lagi á Norðurlöndunum. Mars.

Frumvarp til laga um breytingu á lögum um ávana- og fíkniefni, nr. 65/1974 (iðnaðarhampur). 
Frumvarpið felur í sér breytingu á ákvæði um ræktun og framleiðslu iðnaðarhamps. Mars.

Tillaga til þingsályktunar um stofnun landsráðs um mönnun og menntun í heilbrigðiskerfinu.
Landsráði um mönnun og menntun í heilbrigðiskerfinu er ætlað að vera ráðgefandi vettvangur um mönnun heilbrigðisþjónustunnar og menntun heilbrigðisstétta, þannig að nægur fjöldi hæfs starfs-fólk í heilbrigðiskerfinu sé tryggður til framtíðar og menntun fullnægi þörfum heilbrigðisþjónustunnar hverju sinni. Svo mögulegt sé að tryggja að viðeigandi færni sé til staðar í heilbrigðiskerfinu þurfa háskólar, heilbrigðisstofnanir og tengdar stofnanir að hafa með sér skipulagt samráð. Mars.

Tillaga til þingsályktunar um lýðheilsustefnu.
Með vísan til þingsályktunar um heilbrigðisstefnu til ársins 2030 verður lögð fram tillaga til þingsályktunar um lýðheilsustefnu í því skyni að halda áfram með þá vegferð sem lögð var fram í lýðheilsustefnu frá 2016, en með henni var mótaður fyrsti hluti stefnu og aðgerða sem stuðla að heilsueflandi samfélagi og bættri lýðheilsu á öllum aldursskeiðum. Í nýrri lýðheilsustefnu verður lögð megináhersla á heilsueflingu og forvarnir sem skulu verða hluti af allri þjónustu, sérstaklega hjá heilsugæslunni. Mars.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á hjalp@utn.is

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta