Hoppa yfir valmynd
5. október 2020 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Tilnefningar til Íslensku menntaverðlaunanna 2020

Frá leikskólanum Rauðhóli. - mynd

Mennta- og menningarmálaráðherra kynnti í dag tilnefningar til Íslensku menntaverðlaunanna 2020. Markmið verðlaunanna er að auka veg menntaumbótastarfs og vekja athygli samfélagsins á metnaðarfullu og vönduðu skóla- og frístundastarfi með börnum og unglingum.

„Það er mér sannur heiður að fá að tilkynna um þessar tilnefningar í dag, á alþjóðadegi kennara. Við þurfum öll að muna eftir mikilvægi kennara og íslensks menntakerfis. Menntakerfið hefur unnið þrekvirki á síðustu misserum, en miðað við hugmyndarflug og fjölbreytni skólastarfs þá kemur það mér ekki á óvart. Við erum ótrúlega öflugt fólk í menntakerfinu og það skiptir sköpum að geta verðlaunað og hrósað fyrir gott og gjöfult starf,“ segir Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra. 

Tilnefningar í þremur aðalflokkum eru:

Framúrskarandi skólastarf eða menntaumbætur.

  • Dalskóli fyrir þróun þverfaglegra skapandi kennsluhátta, meðal annars í svokölluðum smiðjum og starfsþróunarverkefni þar sem kennarar rannsaka eigið starf.
  • Leikskólinn Rauðhóll fyrir framúrskarandi og fjölbreytt þróunarstarf og nýsköpun, faglegan metnað, starfsþróun og lýðræðislega starfshætti.
  • Menntaskólinn á Tröllaskaga fyrir nýjar leiðir í skipulagi náms og kennslu með áherslu á valdeflingu nemenda, frumkvæði, sköpun og áræði.
  • Pólski skólinn fyrir mikilvægan stuðning við tvítyngda nemendur og þróun fjölmenningarlegs samfélags á Íslandi, sem og fyrir fjölbreyttar kennsluaðferðir og öfluga starfsþróun.
  • Tónskóli Sigursveins fyrir framúrskarandi tónlistarkennslu og framlag til barnamenningar með árvissu samstarfi við rúmlega 30 reykvíska leikskóla.

Framúrskarandi kennari

  • Anna Sofia Wahlström, kennari við leikskólann Holt í Reykjanesbæ, fyrir framúrskarandi kennslu og þróunarstarf í tengslum við innlend og alþjóðleg verkefni sem beinast að því að efla skapandi leikskólastarf með áherslu á læsi og lýðræði.
  • Birte Harksen, kennari við Heilsuleikskólann Urðarhól í Kópavogi, fyrir framúrskarandi kennslu og frumkvæði við að efla skapandi og leikmiðaða starfshætti í leikskólum með vefsvæðunum Börn og tónlist, Leik að bókum og Stafagaldur.
  • Björn J. Sighvatz, kennari á málmsmíða- og vélstjórnarbraut Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra, fyrir framúrskarandi kennslu, meðal annars við að hvetja nemendur til dáða og stuðla að góðum námsárangri þeirra.
  • Ólöf Ása Benediktsdóttir, kennari við Hrafnagilsskóla, fyrir framúrskarandi árangur við kennslu á unglingastigi, fjölbreyttar kennsluaðferðir og óbilandi trú á hæfni allra nemenda.
  • Þórunn Elídóttir, kennari við Hamraskóla í Reykjavík, fyrir framúrskarandi árangur í byrjendakennslu, vandaða lestrarkennslu barna í yngstu bekkjum grunnskóla og þróun og miðlun námsefnis í læsi.

Framúrskarandi þróunarverkefni.

  • Frístundalæsi: Þróunarverkefni sem snýr að eflingu máls og læsis barna í gegnum leik á frístundaheimilum og í tómstundastarfi, meðal annars með útgáfu handbóka fyrir starfsfólk og foreldra ásamt gerð vefseturs með hugmyndum og leiðbeiningum. 
  • Listrænt ákall til náttúrunnar (LÁN): Samtal náttúrufræði og listgreina: Þróunarverkefni þar sem nemendur fjalla um málefni náttúrunnar á skapandi og nýstárlegan hátt með aðferðum list- og verkgreina. Verkefnið byggist á þverfaglegri nálgun þar sem nemendur takast á við álitamál samtímans með gagnrýnu hugarfari.
  • Smiðjan í skapandi skólastarfi: Þróunarverkefni á unglingastigi í Langholtsskóla í Reykjavík sem beinist að því að auka veg þverfaglegra viðfangsefna með áherslu á sköpun, lykilhæfni og nýtingu upplýsingatækni í námi.
  • Vistheimt með skólum: Langtímafræðsluverkefni í grunn- og framhaldsskólum um vistheimt (endurheimt náttúrulegra gæða) og mikilvægi hennar fyrir gróður og jarðveg, líffræðilega fjölbreytni og baráttuna við loftslagshamfarir.
  • Snillitímar í Gerðaskóla: Þróunarverkefni sem beinist að því að efla frumkvæði nemenda í eigin námi með því að gefa þeim kost á að fást við skapandi verkefni á eigin áhugasviði. 

Ráðgert er að verðlaunin verði afhent í nóvember nk.

Að baki verðlaununum standa embætti forseta Íslands, mennta- og menningarmálaráðuneyti, samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti, Félag um menntarannsóknir, Grunnur – félag fræðslustjóra og stjórnenda skólaskrifstofa, Kennaradeild Háskólans á Akureyri, Kennarasamband Íslands, Listaháskóli Íslands (listkennsludeild og tónlistardeild), Menntamálastofnun, Menntavísindasvið Háskóla Íslands, Miðstöð skólaþróunar við Háskólann á Akureyri, Samband íslenskra sveitarfélaga, Samtök áhugafólks um skólaþróun og skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar.

Sjá nánar á vefnum skólaþróun.is.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

4. Menntun fyrir öll

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta