Mælt fyrir nýjum lögum um mannanöfn á Alþingi
Dómsmálaráðherra hefur mælt fyrir frumvarpi um mannanöfn á Alþingi. Um er að ræða heildarlög sem ætlað er að koma í stað gildandi laga.
Frumvarpið kveður á um víðtækar breytingar á löggjöf um mannanöfn. Það miðar þannig að því að afnema eins og unnt er þær takmarkanir sem eru í dag á skráningu eiginnafna og kenninafna og rýmka heimildir til nafnbreytinga. Hefur frumvarpið því einkum að geyma lágmarksákvæði um skráningu nafna, sem er eitt eiginnafn og eitt kenninafn, en ekki er gert ráð fyrir að takmörk verði á fjölda eiginnafna eða kenninafna eins og nú er.
Í frumvarpinu er gerður áskilnaður um að við tilkynningu á nafni skuli gefa upp birtingarnafn svo samræmi verði í miðlun á nafni einstaklings.
Einnig er lögð til mikil rýmkun á ritun nafna sem mun hafa í för með sér að takmarkanir á skráningu erlendra nafna falla að mestu leyti niður. Felst það m.a. í þeirri tillögu að ekki verði lengur reglur um að eiginnöfn skuli geta tekið íslenska eignarfallsendingu, hafi unnið sér hefð í íslensku máli og að nafn megi ekki brjóta í bága við íslenskt málkerfi. Hins vegar eru lögð til þau lágmarksskilyrði að nafn verði ritað með bókstöfum íslenska nútímastafrófsins að viðbættum stöfunum c, q, w og z, að nafn sé í nefnifalli og án greinis. Þá er gert ráð fyrir að nafn megi ekki vera stakur bókstafur eða skammstafanir, tölustafir, greinarmerki eða önnur tákn.
Áfram er gert að skilyrði að nafn megi ekki vera barni til ama. Ákvæðinu er ætlað að gæta hagsmuna ólögráða barna og hugsað til að koma í veg fyrir nafngjafir sem almennt geta talist íþyngjandi eða bersýnilega óviðeigandi sem nafn. Þjóðskrá Íslands skal, ef henni berst tilkynning um nafn barns sem álitið er að geti verið barni til ama, taka til úrskurðar hvort heimila skuli skráningu nafnsins. Stofnunin getur leitað álits hjá umboðsmanni barna áður en ákvörðun er tekin.
Þá er lagt til að bann við upptöku nýrra ættarnafna verði afnumið. Áfram verður kenning til foreldris meginregla hér á landi. Það nýmæli er í lögunum að heimild til notkunar ættarnafna verður ekki bundin við þá einstaklinga sem bera eða báru ættarnafn í tíð gildandi laga heldur verður öllum heimilt að taka upp ný ættarnöfn. Verður það gert með beiðni til þjóðskrár á svipaðan hátt og unnt verður að óska eftir nafnbreytingu.
Í frumvarpinu er lagt til að heimildir til nafnbreytinga verði rýmkaðar til muna, en samkvæmt lögum í dag eru þær einungis heimilaðar einu sinni nema sérstaklega standi á. Þá er lagt til að börnum frá 15 ára aldri verði tryggður sjálfsákvörðunarréttur þegar kemur að nafnbreytingum. Auk þess er leitast við að tryggja betur rétt yngri barna til að taka þátt í slíkri ákvörðun, sem er í samræmi við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins. Þannig er ráðgert að afnema aldursmörk laganna um að samráð skuli haft við barn um nafnbreytingu sem náð hefur 12 ára aldri, en lagt er til að breyting sé háð samþykki barns hafi það náð þroska til að taka afstöðu til hennar.
Lagt er til að hætt verði að halda mannanafnaskrá í þeirri mynd sem hún hefur verið haldin af mannanafnanefnd, en í staðinn haldi Þjóðskrá Íslands skrár yfir eiginnöfn sem hún hefur skráð, og yfir ný ættarnöfn sem hafa verið samþykkt.
Þar sem heimildir til skráningar nafna verða mun víðtækari en í dag, verði frumvarpið samþykkt, er ekki gert ráð fyrir því í frumvarpinu að starfandi verði mannanafnanefnd, enda líkur á að ágreiningsmálum um skráningu nafna muni fækka til muna. Í stað þess að vísa málum til mannanafnanefndar verður unnt að kæra ákvörðun Þjóðskrár Íslands til ráðuneytisins.
Að lokum má nefna að lagt er til að tilkynning um nafn barns til Þjóðskrár Íslands verði alfarið á ábyrgð þeirra er fara með forsjá barns, en verði ekki lengur á verksviði presta þjóðkirkjunnar og presta eða forstöðumanna skráðra trú- og lífsskoðunarfélaga þegar barni er gefið nafn við skírn eða sérstaka athöfn.
Sjá nánar framvindu málsins á Alþingi.