Skipting samstarfssamninga sveitarfélaga eftir landshlutum
Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið lauk í ágúst sl. frumkvæðisathugun á samstarfssamningum sveitarfélaga með leiðbeiningum um almenn sjónarmið sem gilda um samvinnu þeirra, form samvinnu og lagakröfur sem gerðar eru til slíkra samninga. Þá hafa sveitarfélögin öll fengið bréf þar sem þau eru upplýst um athugasemdir ráðuneytisins við einstaka samninga og þeim gefinn frestur til að gera úrbætur. Tilgangur athugunarinnar var að afla heildstæðra upplýsinga um samstarfssamninga sveitarfélaga og leggja mat á hversu vel samningarnir samræmast þeim kröfum sem gerðar eru til slíkra samninga í lögum.
Um er að ræða umfangsmikið verkefni sem hófst í janúar 2018 með bréfi til sveitarfélaga þar sem óskað var eftir upplýsingum um alla samninga sveitarfélaga sem fela í sér samstarf við önnur sveitarfélög. Ráðuneytinu barst um 218 samningar og felur meirihluti þeirra í sér framsal á valdi til töku ákvarðana um rétt eða skyldu manna. Eins og fram kemur í leiðbeiningum ráðuneytisins verður slíkt samstarf að fara fram í formi byggðasamlags eða með samningi þar sem eitt sveitarfélag tekur að sér verkefni fyrir hönd annars eða annarra sveitarfélaga. Þónokkrir samningar fela ekki í sér framsal á valdi en þurfa samt sem áður að uppfylla lágmarkskilyrði sveitarstjórnarlaga um samstarfssamninga. Yfirferð ráðuneytisins leiddi í ljós að mikill meirihluti samninganna uppfyllir ekki þær formkröfur sveitarstjórnarlaga sem gerðar eru til samvinnu sveitarfélaga.
Samstarfsverkefni sveitarfélaga eru ólík í eðli sínu enda veita ákvæði sveitarstjórnarlaga sveitarfélögum víðtæka heimild til að hafa samvinnu um framkvæmd afmarkaðra verkefna. Meðal algengustu verkefna sem sveitarfélög framkvæma með þessum hætti eru verkefni á sviði barnaverndar- og félagsmála, brunamála, grunn- og leikskóla, þjónustu fyrir fatlað fólk, og skipan og rekstur heilbrigðisnefnda og heilbrigðiseftirlits.
Öll sveitarfélög sinna einhverju verkefni í samvinnu við annað eða önnur sveitarfélög en í mismiklu mæli. Til samanburðar má nefna að ráðuneytinu bárust rúmlega 20 samningar frá þeim sveitarfélögum sem eru aðilar að flestum samvinnuverkefnum en það sveitarfélag sem sendi fæsta samninga er aðili að einu samvinnuverkefni.
Samningarnir skiptast, eftir landshlutum, með neðangreindum hætti:
- Samstarfssamningar á höfuðborgarsvæðinu eru rúmlega 30 talsins og gerði ráðuneytið athugasemdir við 11 samninga.
- Samstarfssamningar á Suðurnesjum eru um tíu og gerði ráðuneytið athugasemdir við þrjá samninga.
- Samstarfssamningar á Vesturlandi eru tæplega 40 og gerði ráðuneytið athugasemdir við 19 samninga.
- Samstarfssamningar á Vestfjörðum eru um 15 og gerði ráðuneytið athugasemdir við níu samninga.
- Samstarfssamningar á Norðurlandi vestra eru tæplega 20 og gerði ráðuneytið athugasemdir við 13 samninga.
- Samstarfssamningar á Norðurlandi eystra eru um 40 og gerði ráðuneytið athugasemdir við 30 samninga.
- Samstarfssamningar á Austurlandi eru tæplega 20 og gerði ráðuneytið athugasemdir við 13 samninga.
- Samstarfssamningar á Suðurlandi eru um 45 og gerði ráðuneytið athugasemdir við 21 samning.
Ráðuneytið gerir þann fyrirvara að um er að ræða tölulegar upplýsingar sem unnar eru upp úr þeim samningum sem bárust ráðuneytinu, en ekki tæmandi talning á öllum þeim samstarfssamningum sem sveitarfélögin kunna að hafa gert.
Ljóst er að mikil vinna er fyrir höndum hjá sveitarfélögunum en þeim var gefinn frestur til 15. nóvember nk. til yfirferðar og lagfæringar á öllum samstarfssamningum og mun ráðuneytið, að þeim tíma liðnum, taka afstöðu til þess hvort ástæða sé til frekari aðgerða af hálfu þess, á grundvelli eftirlitshlutverks þess.