Hoppa yfir valmynd
14. október 2020 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Nýtt skólaþróunarteymi – tvö störf án staðsetningar

Mennta- og menningarmálaráðuneyti auglýsir nú eftir tveimur sérfræðingum til starfa í nýju skólaþróunarteymi sem starfa mun þvert á fagskrifstofur menntamála og er einkum ætlað að fylgja eftir áherslum í nýrri menntastefnu til ársins 2030. Teymið mun heyra undir skrifstofu skóla-, íþrótta- og æskulýðsmála og er ætlað að starfa í fimm ár hið minnsta. Um full störf er að ræða og æskilegt er að viðkomandi geti hafið störf sem fyrst.

Fyrirkomulag starfanna er þannig að þau krefjast þess ekki að vera bundin tiltekinni starfsstöð innan veggja ráðuneytisins heldur geta verið unnið hvar sem er á landinu, að því gefnu að viðunandi starfsaðstaða sé fyrir hendi. Að auglýsa störf án staðsetningar á vegum ráðuneytis og stofnana er liður í aðgerðum stefnumótandi byggðaáætlunar til ársins 2024. Markmið er að fyrir árslok 2021 séu 5% auglýstra starfa án staðsetningar og í árslok 2024 séu 10% auglýstra starfa án staðsetningar.

„Hér er um mikilvæga aðgerð að ræða sem hefur það markmið að skapa betri tækifæri til atvinnu um allt land og jafna búsetuskilyrði. Við vonumst til þess að mögulegt verði að auglýsa fleiri störf án staðsetningar á komandi misserum,“ segir Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.

Sjá nánari upplýsingar um störfin hér.






Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta