COVID-19: Samkomutakmarkanir og skólastarf frá 20. október
Í dag tóku gildi reglugerð um takmörkun á samkomum vegna farsóttar og reglugerð um takmörkun á skólastarfi vegna farsóttar. Gildistími reglugerðanna er til og með 10. nóvember að undanskildum bráðabirgðaákvæðum um takmarkanir á höfuðborgarsvæðinu sem gilda til 3. nóvember. Breytingar sem reglugerðirnar fela í sér frá fyrri takmörkunum eru raktar hér að neðan.
Áfram er kveðið á um strangari takmarkanir á höfuðborgarsvæðinu en gilda á landsvísu. Utan höfuðborgarsvæðisins hefur orðið sú meginbreyting að nándarmörk milli einstaklinga hafa verið aukin úr 1 metra í 2.
Takmarkanir utan höfuðborgarsvæðisins – helstu breytingar:
- Nándarmörkmilli einstaklinga eru 2 metrar.
- Skylt er að nota andlitsgrímur þar sem ekki er hægt að tryggja 2 metra nándarmörk, m.a. í verslunum.
- Á viðburðum er einungis heimilt að hafa 20 gesti í hólfi í hverju rými sem skulu sitja í númeruðum sætum sem skráð eru á nafn.
- Íþróttaiðkun sem ekki krefst snertingar, þar sem hægt er að virða 2 metra regluna og 20 manna nálægðarmörk er heimil, jafnt innan- og utandyra.
- Þrátt fyrir 2 metra nálægðartakmörk eru snertingar heimilar milli íþróttafólks á æfingum og í keppnum á vegum Íþrótta- og ólympíusambands Íslands (ÍSÍ), en virða skal 2 metra regluna í búningsklefum og á öðrum svæðum utan keppni og æfinga. Þrátt fyrir 20 manna fjöldatakmörk er allt að 50 einstaklingum heimilt að koma saman á æfingum og í keppnum á vegum ÍSÍ.
- Engir áhorfendur mega vera á íþróttaviðburðum, hvorki innan- né utandyra.
- Íþrótta og heilsuræktarstarfsemi: Heimilt er með skilyrðum að standa fyrir og stunda íþrótta- og heilsuræktarstarfsemi ef um er að ræða skipulagða hóptíma þar sem allir þátttakendur eru skráðir og fjöldi að hámarki 20 manns. Við þessar aðstæður er skylt að virða 2 metra regluna, þátttakendur mega ekki skiptast á búnaði meðan á tíma stendur og allur búnaður skal sótthreinsaður á milli tíma. Sameiginleg notkun á búnaði sem er gólf- loft- eða veggfastur, eða stórra tækja, s.s. á heilsuræktarstöðvum, er óheimil.
Takmarkanir á höfuðborgarsvæðinu – helstu breytingar:
- Allt íþrótta- og tómstundastarf barna á leik- og grunnskólaaldri, þ.m.t. skólasund sem krefst snertingar er óheimilt. Íþrótta- og tómstundastarf sem ekki krefst snertingar er því heimilt. Allt íþrótta- og tómstundastarf sem krefst ekki frekari blöndunar hópa en í skólastarfi er enn fremur heimilt, svo sem í frímínútum eða leikfimitímum í skólum.
- Íþrótta og heilsuræktarstarfsemi: Heimilt er með skilyrðum að standa fyrir og stunda íþrótta- og heilsuræktarstarfsemi ef um er að ræða skipulagða hóptíma þar sem allir þátttakendur eru skráðir og fjöldi að hámarki 20 manns. Við þessar aðstæður er skylt að virða 2 metra regluna, þátttakendur mega ekki skiptast á búnaði meðan á tíma stendur og allur búnaður skal sótthreinsaður á milli tíma. Sameiginleg notkun á búnaði sem er gólf- loft- eða veggfastur, eða stórra tækja, s.s. á heilsuræktarstöðvum, er óheimil.
Reglugerð um takmörkun á samkomum vegna farsóttar
Reglugerð um 2. breytingu á reglugerð um takmörkun á skólastarfi vegna farsóttar