Hoppa yfir valmynd
20. október 2020 Innviðaráðuneytið

Ný heildarlög einfalda lagaumhverfi um skip

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, mælti á Alþingi í dag fyrir nýjum heildarlögum um skip.

Markmið laganna er að tryggja öryggi íslenskra skipa, áhafna þeirra og farþega, efla varnir gegn mengun frá skipum og tryggja skilvirka skráningu, merkingu, mælingu og eftirlit með skipum. Þá er þeim ætlað að veita stjórnvöldum nægilegar heimildir til að innleiða þær kröfur sem leiða af skuldbindingum samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið og öðrum alþjóðlegum skuldbindingum Íslands á sviði sjóréttar er lúta að skipum. Verði frumvarpið að lögum er lagt til að það taki gildi 1. júlí 2021.

Einn megintilgangur með frumvarpinu er að einfalda lagaumhverfi skipa og koma ákvæðum þeirra í ein lög. Í lagasafninu er að finna marga lagabálka sem varða þetta efni með einum eða öðrum hætti og eru margir þeirra komnir til ára sinna. Verði frumvarpið að lögum munu nýju heildarlögin koma í stað laga nr. 31/1925 um einkenning fiskiskipa, laga nr. 115/1985 um skráningu skipa, laga nr. 146/2002 um skipamælingar og laga nr. 47/2003 um eftirlit með skipum. Auk þess verða felld úr gildi ýmis sértæk lög sem eru úrelt.

Þá eru ýmis ákvæði laganna uppfærð og einfölduð þannig að meginreglur laga séu skýrar en ráðherra útfæri skilyrði nánar í reglugerðum. Tiltekin ákvæði gildandi laga eru ekki tekin upp í frumvarpið og er ætlunin að færa þau í stjórnvaldsfyrirmæli. Er þar einkum átt við upptalningu á skilyrðum og upplýsingum sem ber að veita við umsóknir. Með þessu móti verða skilyrði aðgengilegri fyrir notendur laganna sem þurfa þá ekki að leita bæði í lög og reglugerðir til að finna þessi skilyrði.

Á grundvelli gildandi laga eru fjölmargar reglugerðir sem útfæra nánar kröfur sem gerðar eru um skip. Á vegum samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis og Samgöngustofu er unnið að því að einfalda og uppfæra þetta víðtæka regluverk í heild þannig að það verði aðgengilegra fyrir þá sem starfa eftir þessum reglum. Frumvarp að heildarlögum um skip er liður í því verkefni.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta