Hoppa yfir valmynd
23. október 2020 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Leiðarvísir um stuðning við móðurmál og virkt fjöltyngi í skóla- og frístundastarfi

Út er kominn leiðarvísir á þremur tungumálum um stuðning við virkt fjöltyngi í skóla- og frístundastarfi. Mennta- og menningarmálaráðuneytið fól Móðurmáli – samtökum um tvítyngi að taka saman leiðarvísinn í samstarfi við þá aðila sem best þekkja til á þessu sviði hér á landi.

Leiðarvísirinn byggir á lögum, stefnum og rannsóknum, en einnig reynslu og hugmyndum frá fagfólki og vettvangi og alþjóðlegum viðmiðum. Í honum er fjallað um mikilvægi þess að styðja við virkt fjöltyngi barna og ungmenna í skóla- og frístundastarfi, byggja upp samstarf við foreldra og efla samskipti við börn í daglegu starfi. Einnig inniheldur leiðarvísirinn ráð, leiðbeiningar og gagnlegar upplýsingar fyrir foreldra, aðstandendur, kennara og annað fagfólk í leik-, grunn- og framhaldsskólum sem og frístundaleiðbeinendur.

Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra:
„Það er mikilvægt að allir sem starfa með
fjöltyngdum börnum og ungmennum tileinki sér jákvætt viðhorf til fjölbreyttra tungumála og þessi leiðarvísir styður þá framkvæmd. Viðhorf samfélagsins til tungumála í skólastarfi hefur mótandi áhrif á sjálfsmynd og þá tilfinningu barna og ungmenna að tilheyra því samfélagi og upplifa eigin tungumálaþekkingu sem raunverulega auðlind.

Fjöltyngd börn sem búa á Íslandi eiga það sameiginlegt að alast upp við fleiri en eitt tungumál. Kunnátta í íslensku er forsenda farsællar skólagöngu og þátttöku í íslensku samfélagi og góð kunnátta í eigin móðurmáli styrkir nám í öðrum tungumálum. Einnig eru móðurmál fjöltyngdra barna undirstaða tengsla þeirra við foreldra, ættingja og vini á Íslandi og í öðrum löndum. Yfir 100 tungumál eru um þessar mundir töluð hér á landi.

Aukinn fjöldi innflytjenda undanfarna áratugi endurspeglast glöggt í skólakerfinu. Í lok árs 2018 voru 13,7% allra leikskólabarna fjöltyngd. Árið 2017 höfðu 10,7% allra grunnskólabarna annað móðurmál en íslensku. Í sumum sveitarfélögum er þessi tala mun hærri.

Leiðarvísirinn eru aðgengilegur á íslensku, pólsku og ensku og verður hvatt til innleiðingar hans í skólum og á frístundaheimilum um land allt. Unnið er að hvítbók um menntun barna og ungmenna með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn en hún byggir á stefnudrögum starfshóps sem skilaði af sér í maí sl.

Fyrirhuguð er ráðstefna um málefnið þann 3. nóvember nk. Ráðstefnan ber heitið „Ég er hér“ og verður haldin í samstarfi við Háskólann á Akureyri, Heimili og skóla – landssamtök foreldra, Kennarasamband Íslands, Menntamálastofnun, Menntavísindasvið Háskóla Íslands, Miðju máls og læsis, Móðurmál – samtök um tvítyngi, Samfés, Samtök íslenskra framhaldsskólanema, Samband íslenskra sveitarfélaga, Skólameistarafélag Íslands.

Leiðarvísana má nálgast á vef Móðurmáls.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta