Fjarfundir í stað hefðbundins Norðurlandaráðsþings
Norrænir þjóðarleiðtogar funduðu með forsætisnefnd Norðurlandaráðs í dag en þar kynnti Sanna Marin, forsætisráðherra Finnlands, formennskuáætlun Finna fyrir starf Norrænu ráðherranefndarinnar 2021. Þar fór ennfremur fram umræða um áætlun um samfélagsöryggi sem samþykkt var í fyrra.
Þá ræddu leiðtogar Norðurlandanna og fulltrúar Norðurlandaráðs um áhrif COVID-19 faraldursins á Norðurlönd, samstarf þeirra og alþjóðlegt samstarf á sameiginlegum fundi með Antónió Guterres, framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna síðdegis í dag. Þar ræddi Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, um mikilvægi alþjóðlegs samstarfs í viðbrögðunum við faraldrinum: „Það er mikilvægt að viðbrögð okkar við faraldrinum stuðli að grænni umbreytingu, tryggi mannréttindi og kynjajafnrétti og stuðli að jöfnuði.“
Í vikunni standa yfir fundir í nefndum og flokkahópum Norðurlandaráðs en þingi ráðsins, sem halda átti í Reykjavík, var frestað í fyrsta sinn frá því fyrsta þingið fór fram í Kaupmannahöfn árið 1953. Þá verða verðlaun Norðurlandaráðs afhent í kvöld í sérstökum sjónvarpsþætti sem sendur verður út á öllum Norðurlöndunum frá Íslandi.