Norðurlöndin vilja grænan efnahagsbata
Fjárfestingar eiga að hraða grænni umbreytingu og þjóna loftslagsmarkmiðum Parísarsáttmálans. Þetta er meðal þess sem forystufólk Norðurlandanna samþykkti í sameiginlegri yfirlýsingu á N8 fundi sínum í dag sem haldinn var í tengslum við þing Norðurlandaráðs. Í henni segir að í viðspyrnunni eftir efnahagssamdrátt vegna heimsfaraldurs COVID-19 eigi að nota tækifærið til að stýra fjármagni í sjálfbærar fjárfestingar sem skapi um leið félagslegt réttlæti.
Fundinn sátu forsætisráðherrar Norðurlandanna og leiðtogar Grænlands, Færeyja og Álandseyja. Þar var að auki rædd staða mála vegna heimsfaraldursins í löndunum og hvernig mætti auka samstarf landanna í viðureigninni við vírusinn.
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, lagði áherslu á sameiginlega viðurkenningu læknisvottorða á Norðurlöndum sem gætu auðveldað ferðalög á milli þeirra. Katrín ræddi einnig um mikilvægi þess að endurreisa efnahaginn og skapa ný atvinnutækifæri á grundvelli grænna lausna. Þá væri samvinna stjórnvalda, atvinnulífs og fjárfesta nauðsynleg til að ná þeim metnaðarfullu markmiðum sem sett hafa verið í loftslagsmálum.