Ísland undirritar yfirlýsingu um samgöngur framtíðarinnar
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, undirritaði í dag sameiginlega yfirlýsingu evrópskra samgönguráðherra um að efla samgöngur til framtíðar með aukinni stafvæðingu og sjálfvirkni. Markmið yfirlýsingarinnar er að bæta samgöngur framtíðarinnar með því að nýta stafrænar tæknilausnir, framfarir í fjarskiptum, aukna sjálfvirkni og samnýta stafræn gögn um samgöngur þvert á landamæri.
Yfirlýsingin, sem gengur undir heitinu Passau-yfirlýsingin (Passau Declaration), var kynnt og samþykkt á fjarfundi evrópskra samgönguráðherra sem haldinn var í dag. Þjóðverjar voru gestgjafar fundarins þar sem þeir eru í forsæti í ráðherraráði ESB.
Í ávarpi sínu á fundi samgönguráðherranna sagði Sigurður Ingi að Ísland styddi heilshugar markmið Passau-yfirlýsingarnar um að skapa öruggari, sjálfbærari, umhverfisvænni og greiðari samgöngur með stafrænni umbyltingu á samgönguinnviðum og í þjónustu við þá sem þurfa að komast á milli staða. Framtíðarsýn í samgöngum væri kynnt í metnaðarfullri samgönguáætlun fyrir tímabilið 2020-2034 sem Alþingi hafi samþykkt í sumar. Þar væru skýr markmið um að nýta tækniþróun og nýjustu fjarskiptatækni til að efla þjónustu í grunnneti samgangna á Íslandi.
Í yfirlýsingunni eru fimm lykilmarkmið í jafnmörgum efnisköflum:
- Fólk verði ávallt í fyrirrúmi (e. Place people at center stage)
- Samgönguinnviðir efldir með stafvæðingu (e. Expand the digital infrastructure and make mobility infrastructure smart)
- Sjálfvirkni aukin í öllum samgöngumátum (e. Promote automation in all modes of transport)
- Stafræn gögn um samgöngur aukin og samhæfð þvert á landamæri (e. Strengthen smart connectivity - towards a European mobility data space ecosystem)
- Nýsköpun í stafrænum samgöngum efld (e. Promote innovations for digital and virtual mobility)
Fundir evrópskra samgönguráðherra eru að jafnaði haldnir einu sinni á ári en að þessu sinni var haldinn fjarfundur með þátttöku ríkja á EES-svæðinu.