Hoppa yfir valmynd
30. október 2020 Forsætisráðuneytið

Skýrsla um upplýsingaóreiðu og COVID-19 birt á vef Stjórnarráðsins

  - myndÞorkell / Landspítalinn

Skýrsla vinnuhóps þjóðaröryggisráðs um upplýsingaóreiðu og COVID-19 sem settur var á laggirnar í apríl 2020 liggur nú fyrir. Skýrslan er aðgengileg hér.

Í skýrslunni er fjallað um mikilvægi upplýsingamiðlunar og lýðheilsu, nýtt tækniumhverfi og miðlun upplýsinga, samstarf hópsins við Vísindavef Háskóla Íslands og alþjóðasamstarf á þessu sviði.

Í 6. kafla skýrslunnar er ítarlega fjallað um niðurstöður kannana sem vinnuhópurinn stóð fyrir í samvinnu við rannsóknarfyrirtækið Maskínu í júní og ágúst sl., þar sem meðal annars var leitað svara við spurningum um hvernig fólk aflaði sér upplýsinga um kórónuveiruna og COVID-19, traust á upplýsingamiðlun og hvort og þá hvernig misvísandi eða rangar upplýsingar um veiruna og sjúkdóminn hefðu borist almenningi. Kannanirnar tóku mið af sambærilegum alþjóðlegum könnunum um efnið. Gefa niðurstöðurnar ákveðnar vísbendingar um hvernig aðstæður eru á Íslandi í samanburði við önnur ríki.

Niðurstöður kannananna í heild má nálgast á mælaborði og á pdf skjölum frá Maskínu og hér. Samkvæmt niðurstöðunum treystu nánast allir aðspurðra Þríeykinu (landlæknir, sóttvarnalæknir og almannavarnir), innlendum viðbragðsaðilum, svo sem almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, embætti landlæknis og Landspítala - háskólasjúkrahúsi, til þess að miðla áreiðanlegum upplýsingum um kórónuveiruna og sjúkdóminn COVID-19. Yfir 80% treystu innlendum fjölmiðlum, rúmlega 40% treystu erlendum fréttasíðum en í kringum 10% treystu samfélagsmiðlum. Kannanirnar leiddu í ljós að Íslendingar telja sig flestir vera mjög eða fremur vel upplýsta um kórónuveiruna og COVID-19 og yfirgnæfandi meirihluti svarenda sagðist hafa fengið hæfilegt magn af upplýsingum um veiruna og sjúkdóminn. Um 30% höfðu séð/heyrt mjög eða fremur mikið af röngum eða misvísandi upplýsingum um kórónuveiruna og COVID-19. Af þeim sem höfðu séð/heyrt rangar eða misvísandi upplýsingar höfðu langflestir, eða tæp 80%, fengið þær á samfélagsmiðlum, rúm 40% á erlendum fréttasíðum og tæplega 30% í íslenskum miðlum.

Í skýrslunni má enn fremur lesa ábendingar hópsins sem m.a. lúta að mikilvægi tímanlegrar og áreiðanlegrar upplýsingamiðlunar stjórnvalda, að starfsreglur tæknifyrirtækja sem miðast við að sporna gegn upplýsingaóreiðu nái einnig til starfsemi þeirra hér á landi, að sett verði samræmd stefna um miðlalæsi sem nær til allra hópa samfélagsins, að byggja þurfi upp þekkingu og auka samstarf um greiningu á misnotkunartækni í samfélags- eða fjölmiðlaumræðu og að gerðar verði reglulegar kannanir af því tagi sem vinnuhópurinn stóð fyrir á meðan COVID-19 faraldurinn stendur yfir.

Vinnuhópinn skipuðu þau: Elfa Ýr Gylfadóttir, framkvæmdastjóri fjölmiðlanefndar, Kjartan Hreinn Njálsson frá embætti landlæknis, Jón Gunnar Ólafsson, doktor í fjölmiðlafræði, Anna Lísa Björnsdóttir samskiptamiðlafræðingur, Guðrún Hálfdánardóttir blaðamaður, Þorgeir Ólafsson frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu, Sigurður Emil Pálsson frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, María Mjöll Jónsdóttir og Ólöf Hrefna Kristjánsdóttir frá utanríkisráðuneytinu. Þórunn J. Hafstein, ritari þjóðaröryggisráðs, leiddi starf hópsins.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

17. Savinna um markmiðin

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta