Hoppa yfir valmynd
30. október 2020 Matvælaráðuneytið

Strandríkjafundir ræddir í ríkisstjórn

Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra - mynd

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, gerði á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun grein fyrir fundum strandríkja og veiðiríkja um stjórnun veiða úr stofnum úthafskarfa, kolmunna, norsk-íslenskrar síldar og makríls sem fram fóru í október. Þetta var í fyrsta sinn sem Bretar taka þátt í þessum fundum sem sjálfstæðir aðilar.

 

Í málefnum úthafskarfa hefur um nokkurn tíma verið uppi sú staða að Alþjóðahafrannsóknarráðið (ICES) hefur veitt ráðgjöf um stöðvun veiða úr báðum stofnum hans. Ísland hefur flutt tillögu þar að lútandi á fundum strandríkjanna og á ársfundi Norðausturatlantshafsfiskveiðinefndarinnar (NEAFC) en þær tillögur hafa til þessa ekki verið samþykktar.  Sama staða er uppi eftir síðasta fund og mun Ísland því standa eitt að tillöguflutningi á ársfundi NEAFC sem hefst 9. nóvember n.k.

 

Frá árinu 2015 hafa stofnar kolmunna og norsk-íslenskrar síldar verið veiddir án heildarsamkomulags um skiptingu og hefur árleg veiði því verið um 20-30% umfram ráðgjöf. Líkt og fyrri ár þá skiluðu fundirnir í ár engum árangri öðrum en þeim að aðilar samþykktu að við setningu einhliða kvóta skuli miða við heildarafla í samræmi við gildandi aflareglur og ráðgjöf ICES. Í tilviki kolmunna er það 929 þúsund tonn og 651 þúsund tonn í norsk-íslenskri síld og verða tillögur lagðar fram á árfundi NEAFC.

 

Á fundinum um norsk-íslenska síld fór nokkur umræða fram um strandríkisstöðu einstakra aðila en eftir útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu er ljóst að Evrópusambandið, sem fékk viðurkenndan strandríkishlut í samningum strandríkjanna frá 1996 og síðan aftur árið 2007, telst ekki lengur vera strandríki. Þetta mál var ekki útkljáð á fundinum en Noregur, sem fundarboðandi þessa fundar, mun kalla til sérstaks aukafundar í janúar þar sem þetta mál verður útkljáð.

 

Viðræður um makríl hafa staðið í þessari viku. Þær báru þess merki að samkomulag Evrópusambandsins, Noregs og Færeyja frá árinu 2014 rennur út í árslok en að auki tók Bretland þátt í fyrsta sinn sem sjálfstætt strandríki. Ekki náðist samkomulag um heildstæða stjórnun og hefur viðræðum verið frestað fram í seinni hluta nóvember.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta