Hoppa yfir valmynd
30. október 2020 Innviðaráðuneytið

Tillögu Sigurðar Inga um evrópskt stafrænt ökuskírteini vel tekið

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, á kynningarfundi um stafræn ökuskírteini. - mynd

Á fundi evrópskra samgönguráðherra í gær lagði Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, fram tillögu þess efnis að stafræn ökuskírteini yrðu viðurkennd í öllum löndum á Evrópska efnahagssvæðinu (EES-svæðinu). Tillögunni var vel tekið og verður málið tekið upp á vettvangi EES-samstarfsins. 

Sigurður Ingi kynnti árangursríka innleiðingu Íslendinga á stafrænum ökuskírteinum fyrr í sumar. Stór hluti landsmanna með ökuréttindi hafi þegar sótt sér stafræn ökuskírteini í upplýsingagáttinni Ísland.is og að stafvæðing þessarar þjónustu hins opinbera hafi gengið vel. Það væri mikið framfaraskref að fá ökuskírteini í snjallsímann. Ísland hafi fetað í fótspor Norðmanna í þessum efnum og að rík ástæða væri fyrir Evrópuþjóðir að sameinast um að viðurkenna stafræn ökuskírteini. Ennfremur myndi rafvæðing umsóknarferils ökuskírteina spara umstang og ferðalög og veita fólki augljós þægindi.

Málið tekið upp innan ESB

Samgönguráðherrar Noregs og Danmerku tóku undir tillögu Sigurðar Inga um stafrænt ökuskírteini í umræðum á fjarfundinum í gær. Framkvæmdastjóri samgönguskrifstofu ESB tók einnig vel í tillöguna og lýsti því yfir að málið yrði tekið upp á vettvangi sambandsins. 

Þjóðverjar voru gestgjafar á fundi samgönguráðherranna, þar sem þeir eru í forsæti í ráðherraráðinu. Samgönguráðherra Þjóðverja sagði í lokaávarpi sínu að Þýskaland myndi styðja og taka þátt í að þróa og útbúa samræmd stafræn ökuskírteini.

Ökuskírteini eru almennt viðurkennd gagnkvæmt milli Evrópuríkja en gera þarf breytingar á Evróputilskipun um ökuskírteini til að stafræn ökuskírteini verði viðurkennd.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta