Hoppa yfir valmynd
2. nóvember 2020 Forsætisráðuneytið

Grænbók um framtíðarumhverfi kjarasamninga og vinnumarkaðsmála

Nefnd um gerð grænbókar um kjarasamninga og vinnumarkaðsmál er ætlað að skila tillögum sínum til forsætisráðherra í lok apríl á næsta ári svo unnt verði að taka hana til umfjöllunar fyrir þinglok. Í nefndinni, sem Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, skipaði nýverið eiga sæti þau Henný Hinz, aðstoðarmaður ríkisstjórnar sem er jafnframt formaður nefndarinnar, Elín Blöndal, aðjúnkt við lagadeild Háskólans á Bifröst og Vilhjálmur Egilsson, hagfræðingur. Forsætisráðherra kynnti ríkisstjórninni minnisblað þessa efnis fyrir helgi.

Í yfirlýsingu um aðgerðir til stuðnings lífskjarasamningunum frá því í fyrra var fjallað um að stjórnvöld og heildarsamtök á vinnumarkaði myndu vinna að gerð grænbókar um framtíðarumhverfi kjarasamninga og vinnumarkaðsmála.  Fjallað hefur verið um markmið og verklag við gerð grænbókar um kjarasamninga og vinnumarkaðsmál á samráðsfundum stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins og á vettvangi þjóðhagsráðs. Auk þess sem fram hafa farið samtöl við aðila vinnumarkaðarins um áherslur og væntingar til vinnunnar á undanförnum vikum. Markmið verkefnisins er að kortleggja núverandi stöðu, varpa ljósi á reynsluna af núgildandi fyrirkomulagi og leggja fram skýrslu sem getur orðið grundvöllur að frekari umræðu og stefnumörkun.

Til að tryggja samráð við aðila vinnumarkaðarins verður skipaður sérstakur samráðshópur forystufólks heildarsamtaka á vinnumarkaði ásamt fulltrúum frá fjármála- og efnahagsráðuneyti, félagsmálaráðuneyti, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og ríkissáttasemjara.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum